miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fimm milljarða frystitogari Brims líklega seldur til Grænlands

25. október 2019 kl. 17:01

Teikning af nýjum frystitogara HB Granda

Brim hefur hafið samningaviðræður við grænlenska félagið Arctic Prime Fisheries Aps. um kaup á nýjum togara félagsins.

Brim hefur hafið samningaviðræður við grænlenska félagið Arctic Prime Fisheries Aps. um kaup á togara félagsins sem verið er að smíða í skipasmíðastöð á Spáni. Ekki er gert ráð fyrir því að viðskiptin muni hafa áhrif á EBITDA-félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Viðskiptablaðið sagði fyrst frá.

Sagt var frá því árið 2017 að stjórn Brims, sem þá hét HB Grandi, hefði ákveðið að semja við skipasmíðastöðina Astilleros Armon Gijon SA um smíði á frystitogara. Samningsupphæðin var fimm milljarðar króna og átti að afhenda skipið í árslok 2019.

Á vormánuðum í fyrra var tilkynnt að samið hefði verið við Marel um uppsetningu FleXicut-kerfis og pökkunarflokkara í nýja togarann. Þá sá Skaginn 3X um uppsetningu vinnsludekks fyrir togarann.

Togarinn var hannaður af Rolls Royce í Noregi og er 81 metri að lengd og 17 metra breiður. Hafði hann að geyma lestarrými fyrir um þúsund tonn af frystum afurðum á brettum.