mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fimm norsk skip svipt veiðileyfi við Ísland

SVAVAR HÁVARÐSSON – GUÐS
15. febrúar 2019 kl. 16:30

Eitt umræddra skip - Liafjord - að landa loðnu í Neskaupstað á síðustu vertíð. Mynd/KSH

Tilkynntu um aflamagn sem sýndi annað en við löndun í íslenskri höfn

Sviptingin er varanleg, þar sem íslensk lög heimila ekki að leyfi til veiða sé veitt að nýju. Félag norskra útgerðarmanna kvartar undan niðurstöðunni, og þykir refsingin ekki hæfa glæpnum.

Forsaga málsins er að árið 2017 voru fjögur norsk uppsjávarskip að veiðum innan íslenskrar lögsögu sem tilkynntu aflamagn sem var ekki í samræmi við magn landaðs afla. Í fyrra kom eitt slíkt mál upp til viðbótar og voru þau öll svipt leyfi til veiða í íslenskri lögsögu.

Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir, sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs, staðfestir þetta í skriflegu svari til Fiskifrétta. Hún segir að ákvörðun Fiskistofu byggi á 8. gr. laga nr. 22/1998 um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands og sé kæranleg til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins innan þriggja mánaða.

„Þetta eru varanlegar sviptingar, skipin voru svipt veiðileyfi samkvæmt 8. grein laganna. Þar er ekkert tiltekið um tímalengd. Hins vegar bannar 6. grein laganna að þeim verði veitt leyfi að nýju,“ segir Áslaug.

Nokkuð er fjallað um málið í norskum fjölmiðlum.

Fengju sektir í Noregi
Audun Maråk, framkvæmdastjóri Fiskebåt, samtaka norskra útgerðarmanna, segir íslensk stjórnvöld hafa brugðist of hart við. Í viðtali við norska Fiskeribladet fullyrðir hann að önnur skip, bæði norsk og annarra þjóða skip, hafi sloppið betur. Sambærilegt brot myndi í Noregi varða sektum upp á 10 til 15 þúsund norskar krónur, auk þess sem aflaheimildir yrðu skertar sem umframaflanum nemur.

Í Noregi hafi menn auk þess svigrúm upp á plús eða mínus tíu prósent þegar aflinn er skráður, þannig að einungis sú skráning sem fer yfir 10 prósent af vigtuðum afla sé metin til refsingar. Brotin á Íslandi hafi falist í því að munur á skráningu og vigt hafi verið á bilinu frá 12-13 prósent upp í 17-18 prósent.

Maråk því auk þess fram að munur geti verið á vigtinni eftir því hvar aflinn er vigtaður. Þar að auki hefur Fiskeribladet eftir honum að auðvelt að gera mistök við skráningu afla á Íslandi vegna þess að það sé svo stutt siglingaleið frá miðunum til löndunarstaðar: „Það tekur tíma fyrir aflann að setjast til í lestinni,“ fullyrðir framkvæmdastjórinn.

Hvað sem því líður þá segir hann samtök sín hafa átt í viðræðum við íslensk stjórnvöld í von um að hægt verði að milda refsinguna.

Fiskeribladet greinir frá því að skipin heiti Liafjord, Østerbris, Talbor og Teigenes, en blaðið hefur ekki heimildir um nafn fimmta skipsins.