miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fimm þúsund tonnum hent í hafið

Guðsteinn Bjarnason
3. september 2020 kl. 07:00

Þorskur í trollpoka. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

Hafrannsóknastofnun hefur birt á vef sínum nýjar upplýsingar um áætlað brottkast þorsks og ýsu árin 2016, 2017 og 2018.

Samkvæmt nýrri samantekt Hafrannsóknastofnunar jókst brottkast bæði þorsks og ýsu töluvert í botnvörpuveiðum á árinu 2017. Árið 2017 er talið að nærri 4% þorskaflans á botnvörpu hafi verið hent í hafið, eða 5.274 tonnum.

Brottkast í línuveiðum reyndist svipað og áður, en þó jókst brottkast ýsu nokkuð árið 2017. Brottkast á þorski í netaveiðum var einnig svipað og áður, en árið 2018 var það engu að síður hærra en langtímameðaltal.

Samtals er brottkastið á línu, dragnót, netum og botnvörpu árið 2017 talið hafa numið 5.658 tonnum, en það nemur 2,62% heildaraflans það ár.

Hafrannsóknastofnun hefur frá árinu 2001 lagt mat á brottkast í veiðum á þorski og ýsu. Skýrslur voru framan af birtar árlega en í seinni tíð annað eða þriðja hvert ár. Nú hefur stofnunin birt tölur fyrir árin 2016 til 2018.

„Það hefur orðið dálítil aukning, já,“ segir Guðjón Már Sigurðsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun. Hann segist telja að þessar tölur gefi nokkuð góða mynd af raunverulegu lengdarháðu brottkasti á Íslandsmiðum.

„Já, svona þokkalega að minnsta kosti. Það væri náttúrlega hægt að gera betur en það kostar pening.“

Mælt á sjó og í landi

Mælingarnar fara þannig fram að eftirlitsmenn Fiskistofu mæla lengd fiska bæði úti á sjó – áður en hugsanlegt brottkast á sér stað, og á lönduðum afla – eftir að brottkast ætti sér stað. Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar sjá síðan um útreikningana sem mat á lengdarháðu brottkasti er byggt á, en aðferðin nær ekki yfir annað brottkast t.d. þegar verðminni tegundum er hent.

„Í botnvörpunni er reynt að fara í flestalla togara landsins alla vega einu sinni og svo er reynt að para það við sýni í landi, helst úr sama togara og ef ekki úr sama þá úr öðrum togara sem hefur verið á veiðum í sama tilkynningaskyldureit á svipuðum tíma,“ segir Guðjón.

Vegna fjárskorts hefur verið dregið töluvert úr gagnasöfnun undanfarin ár. Árið 2012 var gagnasöfnun í dragnótarveiðum hætt og árið 2014 var fyrirkomulaginu breytt þannig að einungis annað hvert ár eru gerðar mælingar í botnvörpu- og netaveiðum en áfram er á hverju ári mælti í línuveiðum.

Guðjón segir stefnt að því að birta tölur fyrir árin 2019 og 2020 snemma á næsta ári.