föstudagur, 15. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fimmtungur makrílaflans fór í manneldisvinnslu

25. febrúar 2010 kl. 11:58

Árið 2009 veiddu íslensk skip um 116 þúsund tonn af makríl og er áætlað að heildarútflutningsverðmæti makrílafurða árið 2009 hafi numið u.þ.b. 7 milljörðum króna. Stærstur hluti makrílaflans eða 80% fór til mjöl- og lýsisvinnslu, 7% fóru í landfrystingu, um 11% af aflanum var frystur um borð í vinnsluskipunum og um 2% var ráðstafað sem ísfiski.

Þetta kemur fram í nýrri greinargerð vinnuhóps á vegum sjávarútvegsráðuneytisins um makrílveiðar og –vinnslu. Þar er m.a. vikið að stjórn makrílveiðanna í fyrra sem ekki þótti takast vel vegna þess að beitt var frjálsri sókn þar til heildarkvóta var náð. Um þetta segir í greinargerðinni:

,,Hvað innlenda veiðistjórnun varðar er það lykilatriði að tryggja sem best möguleika til þess að hámarka þau verðmæti sem gera má úr makrílnum á hverjum tíma. Reynslan af því fyrirkomulagi sem viðhaft var í ár var ekki góð og fullyrða má að veruleg verðmæti fóru í súginn. Því skiptir öllu máli að betur takist til í framtíðinni og að skipulag og fyrirkomulag veiðanna verði með öðrum og betri hætti. Til að hámarka verðmæti þessarar auðlindar er nauðsynlegt að útgerðir viti hvað mikið magn af makríl þær hafa til ráðstöfunar þannig að unnt sé að skipuleggja veiðar og vinnslu sem best. Það er einnig mikilvægt við skipulagningu á veiðum og vinnslu á norsk-íslenskri síld.

Starfshópurinn telur að tryggja beri möguleika sem flestra til að taka þátt í veiðunum með sem fjölbreyttustum hætti og að hluta leyfilegs aflamagns verði ráðstafað í þeim tilgangi. Að lokum er á það bent að því fyrr sem fyrirkomulag veiðistjórnunar næsta veiðitímabils liggi fyrir þeim mun betur geti útgerðir og vinnslur skipulagt starfsemi sína þannig að sem mest verðmæti fáist við veiðar og vinnslu á makríl.”

Ítarlega er fjallað um greinargerð vinnuhópsins í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag, en þar koma fram margvíslegar upplýsingar um makrílstofninn auk þeirra þátta sem snúa að vinnslu- og markaðsmálum.