föstudagur, 27. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fín veiði og einmuna blíða

Guðjón Guðmundsson
30. apríl 2020 kl. 18:00

Guðmundur A. Hólmgeirsson að ganga frá afla dagsins. Mynd/Hafþór Hreiðarsson

Yfirstandandi grásleppuvertíð úti fyrir Norðausturlandi er ein sú albesta í manna minnum.

Guðmundur A. Hólmgeirsson, skipstjóri og útgerðarmaður á Aroni ÞH frá Húsavík, segir yfirstandandi grásleppuvertíð úti fyrir Norðausturlandi eina þá albestu í manna minnum. Allt frá 9. apríl hefur ekki dagur dottið út í veiðunum enda skipti þá um ham í veðri og hefur verið eindæma blíða upp á hvern dag. Guðmundur og þriggja manna áhöfn hans eru komin með ríflega 30 tonn af grásleppu á þessum frá upphafi vertíðar.

Guðmundur er áttræður og lætur aldurinn ekki aftra sér frá því að stunda sjóinn enda heilsuhraustur og ólatur til vinnu. Hann hefur gert út báta allt frá 1971 og farið á ófáar grásleppuvertíðirnar.

Guðmundur er fæddur í Flatey á Skjálfanda árið 1939 og þekkir miðin þar allt í kring eins og handarbakið á sér.

Góður gangur

„Þetta gengur mjög vel. Við gátum nú ekki lagt fyrr en 9. apríl. Það var bara óveður fyrstu átta daga mánaðarins. Síðan hefur verið einmuna góð tíð og veiðar gengið vel. Þetta var vondur og óveðrasamur vetur í alla staði og mátti alveg breyta um. Það er sól og logn núna eins og hefur verið undanfarna daga,“ sagði Guðmundur sem var að leggja net við Flatey þegar náðist í hann.

Guðmundur og áhöfn hans eru með 120-130 net. Hver grásleppubátur má vera með net sem ná yfir 7,5 kílómeter. Þau eru  yfirleitt dregin tveggja til þriggja nátta og þau liggja aldrei lengur en í þrjá sólarhringa ef á annað borð hægt er að athafna sig.

„Við lönduðum tæpum fjórum tonnum í gær og þannig hafa aflabrögðin verið frá byrjun. 2-4 tonn eftir 2-3 nátta legu. Þetta er meiri afli en hefur verið mörg undanfarin vor á grásleppuvertíðum hérna á þessum slóðum. Þetta er þó breytilegt eftir landshlutum. Við leggjum netin við Flatey á Skjálfanda, Flateyjardal og meðfram þeim fjöllum. Þetta eru gömul og góð mið. Ég er nú fæddur í Flatey og þekki því ágætlega þarna aðstæður.“

Blikur á lofti með verð

Guðmundur hefur ísað grásleppuna og selt hana heila suður til Reykjavíkur til Fiskkaupa. Hann sagði verð á grásleppuhrognum alveg ásættanlegt. Bolurinn hefur verið frystur og seldur til Kína undanfarin ár. Nú séu hins vegar blikur á lofti með verð á þeirri afurð vegna kórónuvírussins. Verðið núna sé 30% lægra en það var í fyrra.

Á Húsavík eru einir átta bátar gerðir út til grásleppuveiða á þessari vertíð. Stefán, sonur Guðmundar, er með Aþenu ÞH á grásleppu og hefur verið í góðri veiði. Hann er að nálgast 70 tonn það sem af er vertíðinni.

Hver bátur má veiða í 44 daga á þessari vertíð. Guðmundur á því rúmlega helming leyfra daga eftir. Báturinn er svo klár að fara á strandveiðar að aflokinni grásleppuvertíð en Guðmundur er sjálfur óráðinn í því hvað hann gerir.