mánudagur, 1. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fín veiði þegar veður leyfir

Guðsteinn Bjarnason
22. mars 2020 kl. 09:00

Allir bátar í höfn í Bolungarvík vegna veðurs. MYND/GB

Fiskmarkaður Vestfjarða í Bolungarvik er með uppboð flesta daga ársins.

Veturinn hefur verið erfiður fyrir vestan, mikið um brælur og lítið um sjósókn. Á síðasta ári voru tæp 12 þúsund tonn seld á markaðnum, sem er nokkur samdráttur frá árinu á undan.

„Þegar línubátarnir hafa komist á sjó hefur verið fín veiði,“ segir Samúel Samúelsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Vestfjarða í Bolungarvík. „Verðin hafa líka verið fín. Á þessum tíma núna lækka þau venjulega, en miðað við magnið sem fer í gegnum fiskmarkaðinn eru þau samt fín.“

Blaðamaður Fiskifrétta skrapp vestur í lok síðustu viku og heilsaði þar meðal annars upp á Samúel. Lítið var um að vera hjá honum þann daginn, enda allir bátar í höfn.

„Það er bara út af veðrinu. Þeir gætu svo sem verið hérna úti á Djúpinu en það er bara ekki svo spennandi eins og staðan er núna. Þeir vilja komast hérna út fyrir, en Djúpið nýtist oft í neyð.“

Alls fóru um 11.600 tonn í gegnum markaðinn á síðasta ári, sem er um 2.500 tonnum minna en árið áður.

„Það er aðallega vegna þess að dragnótaveiðin klikkaði svolítið síðasta haust. Hún var ekki eins burðug og verið hefur. Svo hefur líka verið erfiðara að fá aflaheimildir á bátana.“

Hann segir að á þessum tíma árs sé yfirleitt mokfiskerí í Breiðafirðinum og fyrir sunnan.

Steinbíturinn að koma

„En svo erum við að detta inn í steinbítsvertíð hérna.“

Steinbíturinn hefur ekki verið á háu verði en þegar hann kemur þá veiðist varla nokkur annar fiskur á meðan.

„Menn eru kannski að fá tvo þorska eða tvær ýsur með. Þetta er gríðarmikið magn á stuttum tíma og markaðurinn fyrir steinbít er ekki það stór að hann taki við svona miklu, og það hefur að sjálfsögðu áhrif á verðið. Lægstu verðin hafa verið að fara niður fyrir hundrað krónur slægt.“

Sjálfur er Samúel Súðvíkingur, en býr á Ísafirði og starfar í Bolungarvík. Þar hefur hann stýrt Fiskmarkaði Vestfjarða frá því Fiskmarkaður Bolungarvíkur og Suðureyrar var keyptur og sameinaður Fiskmarkaði Vestfjarða árið 2013.

„Við erum fjórtán í fullu starfi hérna yfir vetrartímann og það fer upp í svona nítján til tuttugu yfir sumartímann. Við erum með svona þrjá til fjóra fasta í löndun, svo erum við með tvo til þrjá inni húsi og svo er fólk sem slagir allt og flokkar. Ætli við séum ekki þriðja stærsta fyrirtækið í Bolungarvík, alla vega, næst á eftir Jakobi Valgeiri og svo Örnu.“

Rólegt á veturna

Auk Bolungarvíkur er Fiskmarkaður Vestfjarða með aðstöðu á Suðureyri og Flateyri. Megnið af fisknum er hins vegar landað í Bolungarvík.

„Yfir vetrartímann eru þetta mestmegnis línubátarnir hérna. En þetta er mjög rólegt frá byrjun nóvember og í dragnótinni eiginlega út mars alla vega. Þeir fara auðvitað túr og túr að reyna þetta, en það er ekkert brjáluð veiði.“

Í Bolungarvík eru gerðir út fimm línubátar, fjórir dragnótabátar og einn togari.

„Svo bætist strandveiðin við yfir sumartímann. Hún er dálítið stór í Bolungarvík.“

Hann segir sjóstangveiði einnig setja svip sinn á Bolungarvík og bæjarfélögin í kring, Flateri, Suðureyri og Súðavík.

„Við þjónustum þessa báta. Þetta eru kannski ekki mörg tonn sem koma en þetta eru kannski fimm til tíu bátar í hverri höfn og gaman að fá fólk í bæinn,“ segir Samúel.

„Svo höfum við verið að landa sæbjúga svolítið. Við þjónustum alla sem vilja landa hjá okkur. Það eru sæbjúgnamið bæði hérna út af Aðalvíkinni og svo út af Flateyri.“