þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

FISK Seafood og Valka gera 100 milljóna samning

22. apríl 2020 kl. 09:00

Guðjón Ingi Guðjónsson, sölustjóri hjá Völku, og Ásmundur Baldvinsson, yfirmaður landvinnslu FISK Seafood, „handsala“ samninginn í takti við tíðarandann. Aðsend mynd

Valka og FISK Seafood gera samning um nýjan samvals- og pökkunarróbót fyrir frosin flök. Hugbúnaðurinn sem byggir á leikjafræði, og unninn í samstarfi við Gervigreindarsetur Háskólans í Reykjavík

Sjávarútvegsfyrirtækið FISK Seafood á Sauðárkróki hefur samið við hátæknifyrirtækið Völku um kaup og uppsetningu á nýju kerfi fyrir samval og sjálfvirka pökkun á léttsöltuðum frystum flökum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækjunum.

Umrætt kerfi velur saman og pakkar flökunum í kassa með mun meiri nákvæmni en þekkst hefur og sparar þannig verðmæta yfirvigt. Kaupverð er um það bil 100 milljónir króna, en í tilkynningunni segir jafnframt:

Tæknibylting í vinnslusalnum

„Kaupin á nýju pökkunarvélinni eru enn ein staðfesting þess að við hjá FISK Seafood erum að hugsa og fjárfesta til  framtíðar,“ segir Ásmundur Baldvinsson, yfirmaður landvinnslu FISK Seafood.

„Hagræðingin er fyrst og fremst fólgin í nákvæmni við vigtun. Við vitum að yfirvigtin verður minni en með mannshöndinni og hvert prósentustig í þeim efnum skiptir gríðarlegu máli fjárhagslega. Sömuleiðis sparast mannskapur við færibandið og þær hendur verða kærkomnar í öðrum mikilvægum verkefnum í vinnslunni. Standi afköstin og gæðin undir væntingum er ekki vafi á því að þessi fjárfesting muni borga sig upp á viðunandi tíma og skila okkur eftir það góðum hagnaði. Það er síðan auðvitað mikið gleðiefni að ganga frá þessum stóra og metnaðarfulla samningi á þessum erfiðu tímum í samfélaginu. Tímasetningin er e.t.v. táknræn fyrir það að bæði er farið að sjá örlítið til sólar í veirufaraldrinum og sömuleiðis í vorinu sem bankar stöðugt upp á hjá okkur þessa dagana. Þá hefur verið ánægjulegt að upplifa það síðustu mánuðina hvað starfsfólk Völku hefur verið áhugasamt í þróunarferlinu.“

Einstakir eiginleikar lágmarka yfirvigt

Þegar vara er seld eftir fastri þyngd er gríðarlega mikilvægt að yfirvigtin sé sem allra minnst í hverjum kassa. Hefðbundnir samvalsflokkarar þekkja aðeins þyngd á einu stykki og velja út frá því, auk líkindareiknings, í hvaða kassa stykkið fer. Samvals- og pökkunarróbótinn frá Völku þekkir raunverulega þyngd stykkja sem eru á leiðinni. Hugbúnaðurinn sem byggir á leikjafræði, og unninn í samstarfi við Gervigreindarsetur Háskólans í Reykjavík, ákvarðar þannig linnulaust bestu lausn og eyðir óæskilegri yfirvigt.

Samstarf sem skapar verðmæti 

„Á undanförnum árum hafa framsækin íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fjárfest mikið í nýrri tækni og lagt þannig sitt af mörkum við framþróun iðnaðarins,“ segir Guðjón Ingi Guðjónsson svæðissölustjóri hjá Völku. „Þessi samningur er til marks um frábært samstarf fyrirtækja í fiskiðnaði og hátæknigeira um nýsköpun sem mun skapa verðmæti fyrir greinina til framtíðar. Við hlökkum til að vinna með FISK Seafood, þessu öfluga og framsækna félagi, að enn frekari þróun og umbótum í framtíðinni.“