miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskað fyrir 385 milljónir á 27 dögum

Guðjón Guðmundsson
7. september 2020 kl. 07:00

Aflaskipið Gnúpur GK. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson

Gnúpur GK kominn úr sinni síðustu veiðiferð fyrir Þorbjörninn í Grindavík.

Frystitogarinn Gnúpur GK, áður Guðbjörg ÍS, kom úr sinni síðustu veiðiferð fyrir Þorbjörn hf. í Grindavík á mánudaginn. Afraksturinn var aflaverðmæti upp á 385 milljónir króna en nú hefur skipinu verið lagt.

Skipstjóri var Grétar Kristjánsson sem var að ljúka sínum sjómannsferli á 75. aldursári. Hann ku hafa vera elsti starfandi togaraskipstjóri landsins.

Í lokatúrnum var skipið í 27 daga að veiðum og var millilandað. Grétar var í brúnni seinni helming túrsins. Allan tímann var verið að veiðum úti fyrir Vestfjörðum. Aflinn var blandaður og á þriðja hundrað tonn af þorski.

„Ég var eiginlega hættur á Gnúp þegar átti að leggja honum fyrir tveimur árum. Síðan var ákveðið að gera hann út áfram en áhöfnin sem hafði verið á honum var farin yfir á Tómas Þorvaldsson. Ég var beðinn um að taka hann að mér í einhvern tíma og sló til,“ segir Grétar.

Hann þurfti að finna nýja áhöfn og niðurstaðan varð sú að einungis ein áhöfn var ráðin og ákveðið að lengja í staðinn stoppin eftir hvern túr. Erfitt hafi verið að rífa þetta í gang á ný því finna þurfti nýja áhöfn, alls 26 manns. En það hafðist ágætlega.

Karfamok í Nætursölunni

Grétar segir túrinn hafa tekið talsvert á því það fylgi því mikil heilabrot þegar veiðarnar eru svona ófrjálsar. Það megi ekki taka nema visst magn af hverri tegund og stundum fáist ekkert annað en það sem ekki megi veiða. Þetta geti verið talsvert stressandi og menn eru fyrir vikið mikið að keyra á milli svæða. Veðrið hafi hins vegar leikið við þá. Sjórinn hafi verið spegilsléttur eins og Reykjavíkurtjörn á góðviðrisdegi.

„Það hefur verið banki opinn þarna fyrir vestan í Nætursölunni sem svo er kölluð inni í Víkurálnum. Það hefur verið alveg með ólíkindum með þennan banka. Menn hafa getað farið þar og mokfiskað karfa eigi þeir karfakvóta. Það er eitthvað alveg sérstakt ef ekki er þarna mok af karfa. Það er fínt að geta farið þangað og tekið 40-50 tonn yfir nóttina. Þá er hægt að einbeita sér að öðru daginn eftir og hægt að fara víða.“

Grétar segir að þrátt fyrir óhemju karfaveiði á þessum slóðum vilji menn draga úr veiðunum vegna þess að það vanti smærri karfa í aflann.  Menn hafi áhyggjur af nýliðuninni þegar eingöngu fæst stór karfi. Það sé auðvitað góðs viti ef það er mikið af ungviði.

Slungin fræði

„Fiskifræðin er slungin fræðigrein og fiskifræðingar fá oft mikla gagnrýni. Innan Hafrannsóknastofnunar geta verið skiptar skoðanir en frá stofnuninni kemur aðeins eitt álit. Ég er ekki að segja að það eigi að auka karfakvótann, einungis að benda á að hlutskipti fiskifræðinga er erfitt. Það er mikil ábyrgð sem fylgir því að gefa út kvóta.“

Gnúpur GK á sér merka sögu sem mikið aflaskip. Grétar segir Gnúp öflugt skip og mjög vel hafi verið staðið að því að halda því við. Það uppfylli þó ekki nútímakröfur. Þetta sé skip sem var smíðað fyrir 14 karla og aðstaðan ekki boðleg í dag. Þótt vinnuaðstaðan sé að mörgu leyti góð krefjist hún talsverðs erfiðis af áhöfninni. Sjálfvirknin er nánast engin og störfin mörg erfið við frystinguna.