sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskaði fyrir 40 milljarða

11. apríl 2017 kl. 11:21

Ásbjörn RE ásamt nýju Engey RE sem leysir hann af hólmi.

Ásbjörn RE hefur iðulega verið í hópi aflahæstu ísfisktogara.

,,Ásbjörn sem Engey leysir af hólmi var smíðaður árið 1978 og vantar því eitt ár í fertugt. Ásbjörn hefur reynst afburðar vel og þrátt fyrir að vera með þeim minnstu í þessum hópi togara hefur hann iðulega verið meðal þeirra aflahæstu og reyndar ósjaldan eða 13 sinnum aflahæsti ísfisktogari landsmanna, síðast árið 2014. Ásbjörn hefur landað um 227 þúsund tonnum í 1.542 löndunum, aflaverðmætið gæti verið um 40 milljarðar króna að núvirði. Já, geri aðrir betur!“

Þetta sagði Vilhjálmur Vilhjálmur forstjóri HB Granda í formlegri móttöku hinnar nýju Engeyjar RE í Reykjavík fyrir helgina, en hún leysir Ásbjörn RE af hólmi. Vilhjálmur bætti því við að  forsenda hins góða árangurs Ásbjarnar RE væri góð áhöfn sem fiskaði vel og kynni til verka. 

Fullfermi á 50 klukkustundum höfn í höfn

,,Fyrstu tveir túrarnir í kjölfar nýafstaðins verkfalls tóku t.d. um 50 klst. hvor frá höfn í höfn og aflinn fullfermi eða 120 tonn af blönduðum afla í hvorri veiðiferð. Slíkur afli hefur reyndar ekki talist til sérstakra tíðinda þegar Ásbjörn hefur verið annars vegar. Það er í raun með ólíkindum hversu mikinn afla áhöfnin hefur ráðið við að koma um borð í Ásbjörn því vinnuaðstaða er vægast sagt bágborin miðað kröfur okkar í dag,“ sagði Vilhjálmur en hann greindi einnig frá því að til að standa vörð um minningu Ásbjarnar, og þar með sögu fyrri kynslóðar skuttogara, hafi HB Grandi látið gera heimildarmynd um Ásbjörn sem sýnd verði um sjómannadagshelgina næstu.