mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskeldi skríður fram úr fiskveiðum

24. júlí 2017 kl. 10:00

Frá japanskri eldisstöð þar sem ræktaðar eru ostrur og hörpuskeljar. MYND / EPA

OECD og FAO segja allt stefna í að árið 2025 verði framleiðsla í fiskeldi á heimsvísu í fyrsta sinn orðin meiri en 100 milljón tonn

Búast má við því að eitthvað muni hægja á hinum hraða vexti í fiskeldi á heimsvísu næstu árin, þannig að vöxturinn fari úr því að vera 5,3 prósent á ári niður í 2,6 prósent. Fyrri talan er meðaltalsvöxtur á ári tímabilið 2007 til 2016 en sú seinni er áætlaður meðalvöxtur á ári tímabilið 2017-2026.

Engu að síður er reiknað með því að fiskeldi fari fram úr fiskveiðum á árinu 2021. Samtals verði framleiðslan orðin 193,9 milljón tonn árið 2026. Þar af verði hlutur fiskeldisins orðinn 102 milljón tonn, en reiknað er með að hann fari í fyrsta sinn í sögunni yfir 100 milljón tonn á árinu 2025.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna um horfurnar í landbúnaði og sjávarútvegi á heimsvísu næsta áratuginn.

Þar kemur einnig fram að fiskverð muni að öllum líkindum hækka að meðaltali um 0,8 prósent á ári næsta áratuginn og verði árið 2026 orðið 7,3 prósentum hærra en á viðmiðunartímabilinu 2014-16. Ekki er þó talið að fiskverð muni hækka neitt að ráði fyrr en árið 2020 en þá taki það við sér og fari hækkandi árlega fram til 2026.

Þá er því spáð að fiskneysla á heimsvísu muni aukast úr 148,8 milljón tonnum upp í 177,7 milljón tonn árið 2026. Hins vegar muni neyslan aukast hægar eftir því sem líður á tímabilið, bæði heildarneyslan og meðaltalsneyslan á mann. Þannig verði meðaltalsneyslan á mann orðin 21,6 kíló árið 2016 og hafi þá aukist um 0,4 prósent að meðaltali á ári þennan áratug.

gudsteinn@fiskifrettir.is