mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskeldisfyrirtæki til Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

14. janúar 2019 kl. 10:00

Einar K. Guðfinnsson, sem gegnt hefur starfi formanns stjórnar LF, verður hluti af teymi SFS og sinnir þar verkefnum er snúa að fiskeldismálum.

Landssamband fiskeldisstöðva leggur niður starfsemi sína og sameinast Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Ákveðið hefur verið að Einar K. Guðfinnsson verði hluti af teymi SFS og sinni þar verkefnum er snúa að fiskeldismálum.

Eftirfarandi fréttatilkynning var send fjölmiðlum í morgun:

Á auka aðalfundi Landssambands fiskeldisstöðva (LF) 14. desember sl. var tekin sameiginleg ákvörðun aðildarfyrirtækjanna um að óska eftir aðild að Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Jafnframt  var ákveðið að leggja niður daglega starfsemi LF og mun henni framvegis verða sinnt af SFS. Fiskeldi hér á landi hefur aukist á undanförnum árum og verkefni Landssambandsins hafa þar með orðið fleiri og fjölþættari. Það er mat stjórnar Landssambandsins að þeim verkefnum verði betur sinnt innan vébanda Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Einar K. Guðfinnsson er formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva: „ Það hefur verið mikil uppbygging í fiskeldi á undanförnum árum og verkefnin sem þarf að leysa úr eru orðin umfangsmeiri og kannski að sumu leyti flóknari en áður. Ég tel þetta því rökrétt skref í þróun samtakanna og fiskeldis á Íslandi, að verða hluti af samtökum sem byggjast á gömlum grunni. Laxeldi hefur alla burði til þess að verða undirstöðuatvinnugrein á Íslandi á sama hátt og sjávarútvegurinn hefur verið um langt skeið og  verða þar með enn ein stoðin undir efnahagslegri hagsæld Íslendinga. Að því munum við vinna.“

Jens Garðar Helgason formaður stjórnar SFS segist fagna komu fiskeldis í samtökin. Nokkur fyrirtæki í fiskeldi hafi um alllangt skeið verið félagsmenn í SFS og styrkur sé að því að fjölga þeim. „Ég hlakka til samstarfsins og hlýt að fagna komu þeirra. Það mun bæði styrkja SFS og ekki síður það góða starf sem unnið hefur verið á vegum Landssambandsins á undanförnum árum. Næstu vikur og mánuðir fara í að samþætta starfsemina undir hatti SFS og ég vonast til þess að þeirri vinnu verði lokið fyrir sumarið.“