laugardagur, 16. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskimaður í stað sjómanns og skipverja

Guðsteinn Bjarnason
22. desember 2019 kl. 09:00

Trollið tekið. MYND/Borgar Björgvinsson

Á síðustu metrunum fyrir jól samþykkti alþingi tvö lög sem lúta að skipum og skipverjum. Annað frumvarpið breytir skilgreiningu á smáskipi þannig að þau verði allt að 15 metra löng í stað 12 metra áður. Með þessu verði mönnunarkröfur einfaldaðar þannig að ein regla gildi um öll skip á þessu stærðarbili.

Landssamband smábátasjómanna fagnaði þessu frumvarpi, enda sé þar verið að samræma reglur um báta á stærðarbilinu 12 til 15 metra. Síðan 2013 hefur verið misræmi á reglum fyrir þessa stærð, eftir að stærðarmörkum krókaaflamarksbáta var breytt þannig að þeir gætu verið allt að 15 metra langir.

Dregið úr öryggi

Sjómannasamband Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM), og Félag skipstjórnarmanna lögðust hins vegar gegn þessum breytingum á þeim forsendum að öryggi sé stefnt í hættu. Með breytingunni þurfi ekki að hafa sérstakan vélavörð á bátum sem eru á lengdarbilinu 12 til 15 metrar, en bátar þessir séu það öflugir að þeir sigli oft langt út og veiði þar við hlið stórra togara í misjöfnum veðrum.

„Verði vélarbilun úti á sjó er því engin krafa um að skipverji um borð hafi kunnáttu eða getu til að gera við bilunina,“ segir í umsögn VM.

Umhverfis- og samgöngunefnd brást við þessu með því að leggja áherslu á að vandað verði til verka þegar gerðar verða breytingar á menntunarkröfum og hvetja jafnframt ráðherra til að skipa starfshóp um það mál.

„Nefndin áréttar að öryggismál áhafna skuli höfð í fyrirrúmi við þær breytingar,“ segir í áliti nefndarinnar.

Orðalagi breytt

Alþingi hefur síðan einnig samþykkt að í lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa verði hugtakið „fiskimaður“ notað í stað orðanna „skipverjar“ og „sjómenn“.

Breytingin er rökstudd þannig í áliti umhverfis- og samgöngunefndar: „Nefndin telur mikilvægt að gætt sé samræmis í hugtakanotkun verði skilgreining hugtaksins „fiskimaður“ lögfest þar sem um er að ræða hugtak sem á byggist réttur og lagðar eru á skyldur samkvæmt lögunum með vísan til alþjóðasamþykktar.“

Þetta orð, fiskimaður, getur varla talist sérlega tamt þeim sem nú tengjast sjávarútvegi. Orðið á sér engu að síður langa sögu í íslensku máli.

Á vefnum tímarit.is er elsta dæmið úr sögu Jónasar Hallgrímssonar, Stúlkan í turninum, sem birtist í Fjölni árið 1847 og hefst á þessum orðum: „Einu sinni var fátækur fiskimaður og átti sjer dóttur; hún var ung og fríð.“

Elstu tvö dæmin í ritmálssafni Árnastofnunar eru hins vegar frá 16. öld, annað úr Nýja testamentisþýðingu Odds Gottskálkssonar og hitt úr Guðbrandsbiblíu.