föstudagur, 24. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskimenn samningslausir í þrjú ár

5. desember 2013 kl. 12:55

Hluti fulltrúa á þingi FFSÍ í síðustu viku.

Óvissan um skipan fiskveiðistjórnunar hamlar endurnýjun samninga.

Á sama tíma og íslenskur sjávarútvegur hefur búið við meiri hagsæld en þekkst hefur um langt árabil hefur ekki tekist að koma saman kjarasamningi sjómanna og útvegsmanna vegna ytri óvissu í rekstrarumhverfi greinarinnar. 

Árni Bjarnason forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands gerði þetta að umtalsefni í ræðu sinni á þingi samtakanna sem haldið var í síðustu viku. Hann benti á að um næstu áramót yrðu liðin þrjú ár síðan kjarasamningar fiskimanna urðu lausir. Það sem helst strandaði á væru kröfur útvegsmanna um að sjómenn tækju þátt í greiðslu veiðigjalda sem stjórnvöld legðu á greinina. 

Árni sagði að hagur sjávarútvegsins hefði sjaldan eða aldrei verið betri. Útflutningstekjur greinarinnar hefðu farið úr því að vera 29% af heildarskuldum greinarinnar árið 2008 í það að verða 85% á næsta ári samkvæmt áætlun. 

„Þetta staðfestir að mínu mati að kröfur útgerðarinnar um stórfellda kjaraskerðingu á hendur sjómönnum hljóti að þarfnast endurskoðunar við. Þegar við bætist að í farvatninu eru lög um stjórn fiskveiða sem ætlað er að eyða margra ára óvissu og gera mönnum kleift að skipuleggja rekstur sinn til lengri tíma, þá trúi ég ekki öðru en að forsendur til kjarasamninga fiskimanna líti dagsins ljós,“ sagði Árni.

Sjá nánar umfjöllun um þing FFSÍ í nýjustu Fiskifréttir. Ályktanir þingsins má sjá á vefsíðu FFSÍ.