mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskimjölsverksmiðjan á Seyðisfirði í fullan gang

13. febrúar 2013 kl. 14:19

Loðnu landað á Seyðisfirði. (Mynd: Heimasíða SVN/Gunnar Sverrisson)

Loðna barst til Seyðisfjarðar fyrir alvöru eftir kvótaaukningu

 

Eftir kvótaaukningu í þessum mánuði fór að berast loðna fyrir alvöru til fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði en í janúarmánuði bárust einungis 4 þúsund tonn til hennar. Loðnulöndun eftir kvótaaukningu hófst hinn 9. febrúar og síðan hefur verið landað í verksmiðjuna daglega. Erika hefur landað í tvígang frá þessum tíma og er að koma með þriðja farminn í kvöld. Þá hafa Birtingur NK og Börkur NK einnig landað á Seyðisfirði síðustu daga.

Nú eru komin á land á Seyðisfirði um 10 þúsund tonn og á loðnuvertíð glaðnar yfir öllum á staðnum. Loðnan skiptir máli fyrir starfsmenn verksmiðjunnar, skapar hafnarsjóði tekjur og verslunum og þjónustufyrirtækjum verkefni.

Á árinu 2012 tók verksmiðjan á Seyðisfirði á móti um 64 þúsund tonnum, um 52 þúsund tonnum af loðnu og rúmum 11 þúsund tonnum af kolmunna.

Gunnari Sverrissyni verksmiðjustjóra á Seyðisfirði líst vel á yfirstandandi loðnuvertíð og segir að nú skipti öllu máli að ná kvótanum og gera sem mest verðmæti úr hráefninu.

Þessar upplýsingar koma fram á heimasíðu Síldarvinnslunnar.