sunnudagur, 17. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskistofa ógildir millifærslur

Guðsteinn Bjarnason
3. október 2019 kl. 10:53

Makrílveiðar við Keflavík sumarið 2018. MYND/HAG

Flókið regluverk um makrílveiðar virðist hafa orðið stjórnvöldum ofviða

Fiskistofa hefur synjað „fjölmörgum beiðnum um millifærslu í makríl þar sem jöfn skipti á makríl og bolfiski koma við sögu,“ að því er segir í tilkynningu sem birt var á heimasíðu Fiskistofu á þriðjudag.

„Stofnunin telur að flutningur sé óheimill þegar útgerð krókaaflamarksbáts sem hefur makrílheimildir í A-flokki hyggst láta af hendi heimildir í bolfiski í krókaaflamarki í skiptum fyrir makríl til aflamarksskips sem býr yfir makrílheimildum í B-flokki,“ segir Fiskistofa.

Þetta stangast á við fyrri túlkun Fiskistofu á reglunum, sem varð til þess að sannkölluð hringekja með makrílheimildir fór af stað, þar sem makrílheimildir voru fluttar fram og aftur milli skipa í skiptum fyrir bolfisk. Þannig gátu fyrirtæki nýtt sér þetta til að flytja bolfiskheimildir úr krókaaflamarki upp í aflamarkskerfið.

Atvinnuvegaráðuneytið komst þann 20. september að þeirri niðurstöðu að þessar millifærslur hafi verið ólögmætar og sendi Fiskistofu leiðbeiningar um framkvæmd laganna, eins og greint var frá í Fiskifréttum í síðustu viku.

400 millifærslur
Að sögn Þorsteins Hilmarssonar, sviðsstjóra hjá Fiskistofu, eru það um það bil 400 millifærslur á aflaheimildum sem taka þurfti til endurskoðunar.

„Fiskistofa hefur enn til skoðunar fjölmargar óafgreiddar og óstaðfestar beiðnir um millifærslur í makríl og mun taka afstöðu til þeirra á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni.

Ekki er annað að sjá en regluverkið sem gefið var út í sumar hafi náð þvílíku flækjustigi að stjórnvöld hafi sjálf lent í vanda við að túlka það.

„Í besta mögulega heimi hefði þetta kannski verið haft aðeins einfaldara,“ sagði Þorsteinn þegar Fiskifréttir ræddu við hann í síðustu viku.

Landssamband smábátasjómanna (LS) hefur harðlega gagnrýnt þessa framkvæmd regluverksins. Axel Helgason, formaður LS, segir Fiskistofu alfarið bera ábyrgð á útkomunni.

25 þúsund tonn
„Það var Fiskistofa sem ákvað að hleypa krókaaflamarksbát upp í A-flokk í makrílnum,“ segir Axel. „Þar með fór þetta af stað.“

Hann segir að nærri 50 þúsund tonn hafa verið millifærðar með þessum hætti, sem í reynd þýðir tæp 25 þúsund tonn því hver færsla telst tvisvar þegar heimild er flutt af einum bát og yfir á annan.

Smábátasjómenn á makrílveiðum hafa síðan margir hverjir einnig nýtt sér heimildir í reglunum til að leigja frá sér óveiddan kvóta.

„Menn þurftu í raun og veru ekki að veiða sínar heimildir, upphafsúthlutunina,“ segir Axel. „Menn gátu fengið í viku hverri úthlutað 35 tonnum úr viðbótarpottinum án þess að þurfa að hreyfa við sínu úthlutaða aflamagni. Síðan núna í lok vertíðar gátu þeir framleigt afla sinn til stórútgerðarinnar sem í sumum tilvikum voru heimildir úr viðbótarpottinum sem átti að vera óheimilt að framleigja.“

Peningaframleiðsla
Samkvæmt lögum frá Alþingi, sem samþykkt voru í þinglok snemma sumars, áttu smábátasjómenn rétt á úthlutun úr 4.000 tonna viðbótarpotti, sem bættist ofan á þau 2.700 tonn sem þeim var úthlutað samkvæmt veiðireynslu.

„Menn eru að fá þarna milljónir fyrir eitthvað sem þeir leigðu af ríkinu fyrir um það bil fjórar krónur og leigja það svo frá sér á 60 krónur,“ segir Axel. „Þetta er í bara peningaframleiðsla. Við gerðum þetta næstum allir. Ef þér eru réttir peningar, þá hafnar þú þeim ekki. Það er bara þannig.“

Hann tekur fram að í sjálfu sér sé það mjög jákvætt fyrir smábátasjómenn að fá tækifæri til að framleigja óveiddar heimildir sínar til stórútgerðarinnar í lok vertíðar. Framkvæmdin hafi hins vegar ekki verið í neinu samræmi við það sem lagt var upp með.

„Þeir stöðvuðu þetta um leið og við bentum á það.“