föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskkaup kaupir vinnslukerfi frá Völku

29. júlí 2020 kl. 10:38

Guðjón Ingi Guðjónsson, sölustjóri hjá Völku og Ásbjörn Jónsson framkvæmdastjóri Fiskkaupa við undirritun samningsins. MYND/Aðsend

Fiskkaup hf. og hátæknifyrirtækið Valka efh. hafa undirritað samning um kaup á hátækni framleiðslukerfi fyrir vinnslu Fiskkaupa við Fiskislóð í Reykjavík.

Í tilkynningu frá Völku segir að nýja hátæknivinnslukerfið geri Fiskkaupum kleift „að auka sveigjanleika og fjölbreytni í afurðum ásamt því að bæta alla helstu lykil árangurþætti sem þekkjast í fiskvinnslum.“

Ennfremur segir í tilkynningunni: 

„Kerfið sem um ræðir inniheldur þekktar lausnir eins og heilfiskflokkun í bland við allra nýjustu tækni eins og vatnsskurðarvél með þrívíddar-röntgenmyndgreiningu og beingarðsfjarlægingu. Jafnframt er notkun róbóta áberandi í kerfinu eins og í pökkunarlausn Völku, Aligner Packing Robot, sem er mikilvægur hluti fyrir heildarvirkni kerfisins.

Kerfið er sérstaklega hannað með gott línulegt flæði í huga sem tryggir hraðan vinnslutíma afurða og viðheldur gæðum þeirra í gegnum vinnsluferlið. Mikil áhersla er lögð á gott vinnurými fyrir starfsfólk og saman skilar þetta verðmætari framleiðslu með sömu starfskröftum.  

Samhliða uppsetningu á tækjunum mun Fiskkaup innleiða RapidFish, allsherjar framleiðslustjórnunarkerfi frá Völku, sem tengist öllum þeim tækjabúnaði sem notaður í vinnslunni sem og öðrum kerfum svo sem bókhaldskerfum. Í kerfinu er mögulegt að setja inn helstu breytur sem hámarka afkomu með notkun fullkominna algríma sem besta skurðarmynstur og pökkun afurða.    

Aukinn sveigjanleiki til framtíðar

„Fiskkaup hefur fylgst grannt með þeirri tæknivæðingu í fiskvinnslunni og þeirri framþróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum. Við ætlum í fullvinnslu afurða, jafnvel alla leið í neytendapakkningar. Það er okkar mat að kerfið frá Völku gefi okkur bestu möguleikana á að ná framþróun í afköstum, gæðum og nýjum afurðum sem er nauðsynlegt. Með þessum kaupum erum við ekki aðeins að stíga skref inn í nútímann heldur  búa okkur undir framtíðina,“ segir Ásbjörn Jónsson framkvæmdastjóri Fiskkaupa.

„Við erum afskaplega þakklát og ánægð með að fá að vinna þetta metnaðarfulla verkefni með eins rótgrónu framleiðslufyrirtæki og Fiskkaupum. Fiskkaup hefur ákveðna sérstöðu í sínu vöruframboði og við lögðum mikla vinnu í að stilla upp heildarkerfi sem myndi henta þeirra þörfum og skila sem mestum ávinningi. Gögn frá hverju tæki fyrir sig geta verið mikilvæg fyrir ákvarðanir seinna í ferlinu. Rapidfish framleiðslutjórnunarkerfið bindur þessi gögn saman, stýrir ferlinu og getur tekið ákvarðanir sem eru manninum ómögulegt. Þannig skapast aukinn ávinningur í heildarkerfinu,“  segir Guðjón Ingi Guðjónsson sölustjóri hjá Völku.“