mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskneysla dregur úr líkum á þunglyndi

21. maí 2014 kl. 11:15

Konur þjást síður af þunglyndi ef þær borða fisk reglulega.

Þetta á aðallega við um konur en síður um karla.

Nýlega könnun sem gerð var í Tasmaníu og Ástralíu sýnir að neysla á fiski tvisvar í viku dregur verulega úr líkum á þunglyndi meðal kvenna. Könnunin sýndi að 25% minni líkur væru á depurð og þunglyndi meðal þeirra kvenna sem borðuðu fisk reglulega en það sama ætti ekki við um karlmenn.

Ástæða þess að fiskneysla dregur eingöngu úr þunglyndi hjá konum en ekki körlum er talin vera sú að karlmenn neyti meira af ómega3 fitum, meðal annars í kjötvörum. 

Könnunin náði til ríflega 1400 karla og kvenna á aldrinum 26 til 36 ára og tók fimm ár. Meðal ályktana sem dregnar hafa verið af könnuninni er að ómega3 fitusýrur vinni með kvenhormónum eins og ostrogeni og progesteroni og auki flæði hamingjuaukandi efna í heila kvenna. Aðrir segja að neysla á ómega3  sé einfaldlega holl og auki því almennt á vellíðan.