laugardagur, 23. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskneysla eykst í Evrópu

13. maí 2016 kl. 12:10

Fiskmáltíð

Þorskurinn vinsælastur allra tegunda

Evrópubúar eru sífellt sólgnari í sjávarfang. Eftir samdrátt í neyslu hefur hún aukist allra síðustu ár. Á síðasta ári jókst fiskneysla um 3,6%. Það ár neytti hver Evrópubúi að jafnaði 24,7 kg af sjávarmeti.

Þorskur er vinsælasta tegundin á borðum Evrópumanna.

Þegar litið er til verðmæta er Evrópusambandið stærsti seljandi sjávarafurða og eldisfisks í heiminum. Árið 2014 námu viðskipti með afurðir af þessu tagi 45,9 milljörðum evra en á síðasta ári 49,3 milljörðum evra, um 6.900 milljörðum króna.

„Í samanburði við marga aðra heimshluta er neysla á hvítfiski mikil í Evrópu. Hlutfall neyslunnar í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku einkennist af mun meira jafnvægi milli tegunda og fæðuflokka. En sökum stjórnvaldsákvarðana og krafna um sjálfbærni geta Evrópubúar ekki sinnt allri eftirspurninni á heimamarkaði. Þess vegna er stór hluti af þeim hvítfisk sem neytt er í álfunni innfluttur,“ segir Xavier Guillou, sérfræðingur hjá EUMOFA stofnuninni.

 

Stofnunin áætlar að þótt Evrópusambandslöndin neyttu alls þess fisks sem framleiddur er innan sambandsins vantaði enn 45% upp á það sem neytt er í dag. Ástæðan er mun minni veiðar í lögsögu Evrópusambandsins og aukin fiskneysla.