mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fisksmygl margfaldast í Noregi

19. maí 2014 kl. 13:14

Oftast er fiskflökum smyglað úr landi.

Erlendir sportveiðimenn gerast æ kræfari í smyglinu.

Það sem af er árinu hafa norsk tollayfirvöld lagt hald á næstum eitt og hálft tonn af fiski sem erlendir sportveiðimenn hafa reynt að smygla út úr landinu í gegnum landamærastöðvar í Tromsfylki og Finnmörku í Norður-Noregi. Þetta er fimm sinnum meira magn en tekið var á sama tímabili í fyrra en þá voru 260 kíló gerð upptæk. Í öllu síðasta ári var lagt hald á fimm tonn.

Samkvæmt norskum lögum mega erlendir ferðamenn ekki taka með sér úr landi nema 15 kíló af fiskmeti og einn heilan fisk til uppstoppunar sem minjagrip. 

Stærsta einstaka smygltilraunin í ár var þegar þýskur ferðamaður reyndi að lauma úr landi 325 kílóum af fiski. Hann fékk sekt upp á jafnvirði 684.000 króna. Í annað skipti voru tveir Pólverjar gripnir með um 250 kíló hvor og fengu þeir 475.000 ISK sekt hvor um sig. Mikið af þeim fiski sem reynt er að smygla er flök. Í einu tilviki var flökum troðið inn í stóran fisk og saumað fyrir. Þegar tollþjónarnir potuðu í fiskinn fannst þeim kviðurinn vera grunsamlega úttroðinn og því komust svikin upp.  

Frá þessu er skýrt í Fiskeribladet/Fiskaren.