sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskur í frönskum: Úlfur í sauðagæru

15. september 2009 kl. 12:00

Bresk yfirvöld herða nú aðgerðir gegn Fish&chips verslunum sem reyna að villa um fyrir viðskiptavinum sínum og selja þeim ódýrar fisktegundir undir því yfirskyni að um þorsk eða aðrar dýrari tegundir sé að ræða.

Breskur dómstóll sektaði nýlega eiganda Fish&chips búðar í Bretlandi um 3.300 pund eða jafnvirði tæplega 700 þúsund íslenska króna eftir að upp komst að það sem sagt var vera þorskur var í raun víetnamski eldisfiskurinn pangasius sem er helmingi ódýrari í innkaupi.

Yfirvöld eru staðráðin í að stemma stigu við þessum vörusvikum og hafa hvatt almenning til þess að hafa samband við stofnanir neytendamála ef grunur vaknar um að verið sé að blekkja með þessum hætti.

Eigendur Fish&chips búða eru í auknum mæli farnir að nota ódýrari fisk í rétti sína, svo sem pangasius eða tvífryst flök. Í sjálfu sér er ekkert athugavert við það svo fremi sem neytendum sé gerð grein fyrir því hvað þeir séu að kaupa.

Í frétt á vefsíðu IntraFish kemur fram að innflutningur á pangasius til Bretlands hafi aukist ár frá ári síðustu fimm árin. Á sama tíma hafi innflutningur á sjófrystum fiski minnkað. Fyrir átta árum hafi breski markaðurinn geta tekið við 50.000 tonnum af sjófrystum fiski á ári en nú nemi eftirspurnin sennilega um 30.000 tonnum.

Í Bretlandi eru starfræktar 11 þúsund Fish& chips búðir.