mánudagur, 9. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskur í Norðursjó færir sig norðar og austar

10. maí 2017 kl. 12:41

Lýsingur (hake) er aðkomufiskur í Norðursjó sem er í hröðum vexti.

Nýjar tegundir hafa komið inn sunnan og vestan að.

Fiskmagn í Norðursjó hefur minnkað jafnt og þétt síðustu 50 árin. Á sama tíma hafa staðbundnir fiskistofnar flutt sig norður og austur á bóginn. Jafnframt hafa nýjar tegundir gengið inn í Norðursjóinn sunnan og vestan að.

Þetta eru niðurstöður skýrslu um fiskstofna í Norðursjó sem norska hafrannsóknastofnunin hefur birt á vef sínum. Bent er á að áðurnefnd þróun hafi leitt til þess að stærri hluti nytjastofnanna í Norðursjó hafi flutt sig inn í hinn norska hluta Norðursjávar. Þetta á við um tegundir eins og þorsk, ýsu, ufsa, lýsu og spærling. 

Alls eru um 140 fisktegundir í Norðursjó en 80% aflans eru af tíu þessara tegunda. Þær eru sandsíli, síld, brislingur, makríll, þorskur, ýsa, ufsi, lýsa, spærlingur og skarkoli. 

Meðal nýrra tegunda sem gengið hafa inn í Norðursjóinn eru nytjastofnar eins og lýsingur, sardína og ansjósa. Síðarnefndu tvær tegundirnar koma aðallega í gegnum Ermarsund en lýsingurinn kemur af svæðinu norðan við Bretland og Írland. Lýsingurinn er í hröðum vexti í Norðursjó.