mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskur seldur í íslensku gervi

Guðsteinn Bjarnason
27. janúar 2019 kl. 07:00

Jónas R. Viðarsson, sérfræðingur hjá Matís. MYND/GB

Jónas Rúnar Viðarsson hjá Matís tók þátt í Evrópuverkefni um matvælasvik

Íslendingar eru illa í stakk búnir til að koma upp um svik í sölu sjávarafurða. Þau er erfitt að uppgötva en þau gætu orðið afdrifarík fyrir Ísland

„Þetta er í raun og veru stórmál fyrir okkur Íslendinga,“ segir Jónas Rúnar Viðarsson, faglegur leiðtogi hjá Matís, um matvælasvik í sjávarútvegi. „En það er mjög erfitt að eiga við þetta.“

Athuganir sýna að vörusvik eru umtalsvert vandamál í alþjóðlegum sjávarútvegi. Tegundasvindl hefur til dæmis mælst allt að 30 prósent enda geta almennir neytendur átt erfitt með að greina á milli tegunda. Hvað Ísland varðar segir Jónas stærsta vandamálið fólgið í því að framleiðslan er nánast öll seld erlendis, þar sem óhægt er um vik fyrir okkur að fylgjast með.

„Það er kannski verið að selja kínverskan eða rússneskan tvífrystan fisk sem ferska íslenska afurð. Í raun og veru er afskaplega lítið sem við getum gert til að sporna við þessu. Ef einhver er til dæmis að selja saltfisk á Spáni eða ferska hnakka í Frakklandi sem íslenska vöru þá þarf einhver að vera þar sem tékkar á þessu.“

Jónas segir mál af þessu tagi hafa varla nokkurn tímann hafa ratað til yfirvalda hér á landi, og það hefur Jónas til marks um að málið sé vissulega alvarlegt.

„Í þessum geira er þetta bara þannig að yfirleitt eru menn með langtímasamninga eða að minnsta kosti langtíma viðskiptasamband, og ef kaupandinn er ekki alveg sáttur þá gera menn bara upp málin sín á milli. Það er ekkert verið að blanda yfirvöldum í málið.“

Öll Evrópa vaknaði

Matís hefur undanfarin fimm ár tekið þátt í alþjóðlegu rannsóknaverkefni sem nefnist FoodIntegrity. Verkefninu var hrint af stað eftir hrossakjötshneykslið árið 2013. Þá komst upp að fjölmörg fyrirtæki höfðu selt neytendum hrossakjöt undir því yfirskini að um nautakjöt væri að ræða. Hneyksli þetta vakti heimsathygli og þá áttuðu margir sig á því hve erfitt væri að tryggja að matvæli innihéldu í raun þá vöru sem fullyrt er á umbúðum eða matseðlum veitingahúsa.

„Þetta breytti öllu. Öll Evrópa vaknaði upp við að þetta var bara allt í tómu rugli,“ segir Jónas.

Fimmta og síðasta ráðstefnan í tengslum við FoodIntegrity var haldin í nóvember síðastliðnum í Frakklandi. Þátttakendur voru frá 40 löndum og rúmlega 300 talsins. Matís var í lykilhlutverki varðandi þann hluta verkefnisins sem sneri að matvælasvikum í tengslum við sjávarafurðir.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að tegundasvindl með sjávarafurðir eru allt að 30 prósent, og þar á ofan bætast við svik sem tengjast til dæmis því að afli frá sjóræningjaveiðum er seldur sem löglegur væri, nauðungarvinna er stunduð við framleiðsluna eða kröfum um hreinlæti og matvælaöryggi er ekki sinnt sem skyldi.

Sushistaðirnir skáru sig úr

Í tengslum við verkefnið var gerð athugun á því hve mörg mál sem tengjast matvælasvikum hefðu komið upp hér á landi og þau reyndust vera sárafá.

„Þar sem þetta fór alla leið til yfirvalda voru það yfirleitt einhver álitamál, eins og eitt mál þar sem rækja sem var veidd á Flæmska hattinum var unnin hérna og síðan seld til Bretlands sem íslensk rækja. Íslenska rækjan var nefnilega með tollkvóta í Bretlandi þannig að ekki þurfti að borga neinn toll, sem hefði þurft að gera ef hún væri kanadísk. Það hafa líka komið upp mál varðandi hrogn, þar sem blönduð hrogn voru kannski seld sem þorskhrogn. Ég held að það hafi samt aldrei komið upp neitt mál hér á landi þar sem kvartað hafi verið til yfirvalda um að framleiðendur hafi afhent aðra tegund en um var samið,“ segir Jónas, og tekur fram að þótt slíkt hafi aldrei komið til kasta yfirvalda eða eftrilitsaðila þá þýði það ekkert endilega að slíkt hafi aldrei gerst.

Aftur á móti kom könnun sem gerð var á veitingahúsum hér á landi í tengslum við FoodIntegrity verkefnið hreint ekki vel út.

„Árið 2016 tókum við hjá Matís 56 sýni á 22 veitingastöðum, og 23 prósent þeirra reyndust innihalda aðra tegund en tilgreint var á matseðli, sem var töluvert hærra en við bjuggumst við. Það má að vísu deila um hversu marktækt þetta var, úrtakið var ekki stórt, en við vorum að reyna að velja misjafnlega dýra staði, fá þversnið einhvers konar.“

Hann segir merkilegt hvað túnfiskur skar sig út í þessari könnun, en tæplega helmingur tegundasvindlsins var með túnfisk, þar sem ódýrari tegundir túnfisks voru seldar sem dýrari. Allur þessi túnfiskur var innfluttur, og því ólíklegt að við veitingastaðina sé að sakast. Aðrar rannsóknir hafa reyndar sýnt að tegundasvik með túnfisk á sushistöðum er viðvarandi vandamál.

„Sushisölustaðir koma yfirleitt verst út úr þessum könnunum alls staðar. Það er ansi oft verið að setja eitthvað annað í Sushiið, og þá er það yfirleitt annar túnfiskur, ódýrari tegund, en svo getur það verið bara einhver annar rauður fiskur, eða hvítur fiskur sem er litaður rauður.“

Jónas tekur samt fram að tegundasvik þurfi ekkert endilega að vera veitingahúsinu að kenna.

„Það má alls ekki líta svo á. Það getur verið að birgjarnir beri ábyrgðina. Þegar ekki voru réttar tegundir í sýnunum hér á landi þá var næstum helmingurinn innfluttur fiskur.“

Allt að fimmfaldur verðmunur

Freistingarnar blasa við hvert sem litið er í viðskiptum með sjávarafurðir, en fyrir Íslendinga eru miklir og ótvíræðir hagsmunir af því að koma í veg fyrir svik.

„Við erum kannski að tala um fimmfaldan verðmun á þorskflaki og pangasius-flaki. Ef þú ert ekki sérfræðingur lítur þetta nokkurn vegin eins út. Hvítt pangasius-flak gæti alveg eins verið þorskur, sérstaklega ef búið er að brauða og djúpsteikja flakið .“

Jónas segir gæðamuninn vera mikinn.

„En það er líka svo miklu meira en gæðamunurinn. Pangasius er alinn upp í því sem við myndum kall drullupollum í Víetnam, uppfullur af sýklalyfjum og í honum er til dæmis lítið sem ekkert af omega 3. Þar að auki eru aðstæður víða mjög slæmar fyrir þá sem vinna þetta, þannig að þetta er heildarpakki sem skiptir máli,“ segir hann.

„Tilapia er síðan tegund sem er jafnvel ennþá ódýrari. Þar ertu í raun með beitarfisk sem getur lifað bara á grasi. Það er þetta sem er hættan fyrir okkur, að það sé verið að selja óæðri vöru sem íslenska vöru. En þarna erum við bara í samkeppni og þurfum að geta réttlætt það af hverju þú ert að borga fimm sinnum meira fyrir íslenskan þorsk heldur en fyrir pangasius eða tilapiu.“

Áttatíu manna sveit í Bretlandi

Sums staðar erlendis hafa stjórnvöld á síðustu árum komið sér upp fjölmennu liði sérhæfðra eftirlitsmanna sem hefur það hlutverk að koma upp um matvælasvik og draga fólk til ábyrgðar.

„Í Bretlandi þeir eru með áttatíu manns að sinna bara þessu verkefni. Þar hefur lögum verið breytt þannig að núna er verið að sækja menn til saka fyrir svik, og lagaramminn hefur breyst þannig að núna eru menn að fara í fangelsi fyrir svona svik.“

Jónas segist ekki vita hvort Ísland sé hreinlega í stakk búið til að koma sér upp viðbúnaðarsveit eða viðamiklu eftirliti af einhverju tagi.

„Ef við höfum ekki efni á að vera með grunninnviði í lagi þá skilur maður það að forgangsröðin liggi annars staðar.“

Hann segist ekki efast um að stofnanir á borð við Heilbrigðiseftirlitið myndu mjög gjarnan vilja sinna þessum málum.

„Eftirlitsaðilar hafa bara hvorki pening né mannskap í þetta. Okkur hjá Matís hefur dottið í hug að bjóða veitingahúsum upp á þjónustu með þetta og þau gætu þá fengið einhvern stimpil frá okkur, og við höfum allt sem til þarf hér innanhús. Það er hins vegar dýrt að sinna þessu og líklega erfitt fyrir flesta að réttlæta þann kostnað, nema menn vilji til dæmis byggja upp einhverja ímynd í kringum það.“

Evrópuverkefninu FoodIntegrity er nú lokið og niðurstöður þess gætu skipt sköpum í að takast á við þetta vandamál. Eitt helsta framlag þeirrar vinnu, sem fram fór á vegum FoodIntegrity, eru gagnagrunnar sem nú liggja frammi á vef verkefnisins, foodintegrity.eu. Þar er að finna ítarlegar upplýsingar um matvælasvindl og þau tæki og aðferðir sem beita má í baráttunni gegn þeim. Auk þess er búið að gefa út sérstaka handbók og smáforrit sem menn geta nýtt sér.