föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskveiðistjóri ESB: Vill sóknardaga til að draga úr brottkasti

2. september 2009 kl. 15:00

Kvóta sem hafa leitt til víðtæks brottkasts ætti að afnema en takmarka frekar þá daga sem fiskiskip mega vera á sjó, að því er haft er eftir fiskveiðistjóra Evrópusambandsins á vef breska blaðsins Telegraph.

Kvótar sem heimila skipum að landa tilteknu magni af fiski hafa verið grundvöllur sameiginlegrar fiskveiðistefnu Evrópusambandsins í aldarfjórðung. Umframafla mega skip ekki koma með að landi. Þetta fyrirkomulag er talið hafa leitt til þess að sjómenn kasta milljónum tonna af fiski á ári til að koma í veg fyrir að veiða umfram aflamark frekar en að koma með allan afla að landi.

Fram kemur hjá Telegraph að Joe Borg, fiskveiðistjóri ESB, ætli að kveða brottkastið niður fyrir fullt og allt. Hann hafi sagt þingmönnum á Evrópuþinginu að draga ætti úr sókn í fiskinn meðal annars með því að takmarka fjölda þeirra daga sem skip megi vera á sjó. ,,Með því að skipta kvótum út fyrir sóknardaga má draga verulega úr umhverfisáhrifum veiða, sérstaklega með tilliti til brottkasts,“ segir hann.

Núverandi kerfi byggist á samblandi af kvótum og dögum á sjó en ef kvótar yrðu afnumdir myndi fiskveiðistefnan felast í úthlutun sóknardaga sem heimilt yrði að framselja milli skipa, annaðhvort leigja eða selja. ,,Þetta gæti hjálpað okkur til að minnka flotann og laga hann betur að auðlindinni. Í augum sumra kann þetta að virðast byltingarkennd hugmynd en við verðum að leita allra leiða til að fiskveiðistefnan þjóni markmiðum okkar,“ segir Joe Borg.

Sameiginleg fiskveiðistefna ESB byggist á því í mörgum tegundum, svo sem þorski, að úthluta þröngt skornum kvótum í því augnamiði að stofnarnir geti náð sér á strik á ný eftir ofveiði fyrri ára. En á svæðum þar sem blönduð veiði er, eins og í Norðursjó, halda sjómenn áfram að veiða þorsk sem meðafla þótt öllum þorskkvótanum hafi verið náð. Talið er að fiskiskip hendi af þessum sökum um milljónum tonna af fiski í Norðursjó á hverju ári.

Í Brussel er nú unnið að endurskoðun á sameiginleg fiskveiðistefnu ESB sem á að ljúka 2012.