þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskverðið verður stóra málið

11. október 2018 kl. 15:00

Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands. MYND/SIGURGEIR SIGURÐSSON

Viðræður um sameiningu allra sjómannafélaganna í eitt

 

Unnið er markvisst að sameiningu sex sjómannafélaga vítt og breitt um landið í nýtt sameinað sjómannafélag. Verði af sameiningunni er stefnt að því að nýja félagið komi fram fyrir hönd sjómanna í kjaraviðræðum við útgerðarmann eftir um það bil eitt ár. Þar með lýkur hlutverki Sjómannasambands Íslands sem viðsemjenda Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Jónas Garðarson, formaður Sjómannafélags Íslands, hefur leitt sameiningaviðræðurnar en hann ætlar ekki að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa fyrir nýja félagið verði af stofnun þess.

gugu@fiskifrettir.is

„Sameiningarviðræðurnar hafa verið í gangi frá því síðastliðið vor og þeim miðar vel. Um er að ræða sameiningu Sjómannafélags Reykjavíkur, Sjómannafélags Eyjafjarðar, Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, Sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum og Sjómannafélags Hafnarfjarðar. Þá er einungis eitt sjómannafélag eftir sem er Sjómannafélag Ólafsfjarðar. Einnig eru sjómenn í verkamannafélögum vítt og breitt um landið og við náum ekki utan um það. En með sameiningu af þessu tagi gæti nýtt félag algjörlega orðið leiðandi og valkostur fyrir aðra sjómenn,“ segir Jónas.

Sjómannafélag Íslands gekk út úr Sjómannasambandinu árið 2007 og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur í síðasta sjómannaverkfalli. Þetta voru tvö stærstu félögin innan Sjómannasambandsins og saman voru þau fjölmennari en sambandið sjálft með öðrum aðildarfélögum.

Litlar líkur að Sjómannasambandið verði áfram til

„Sameiningunni er ekki stefnt gegn neinum. Við viljum straumlínulaga kjarabaráttu og kjaramál sjómanna. Gangi sameiningin eftir tel ég litlar líkur á því að Sjómannasambandið verði áfram til. Ég held reyndar að það sé varla starfhæft í dag. Á sínum tíma þegar Sjómannasambandið var stofnað voru samgöngur með þeim hætti að það var varla bílfært vestur á Snæfellsnes. Núna er tæknin önnur og sjómönnum hefur líka fækkað. Sameining af þessu tagi er því mjög brýn. Við teljum að það verði mikill slagkraftur í nýju félagi. Sjómannasambandið er auðvitað ekki stéttarfélag heldur regnhlífarsamtök með löngum boðleiðum. Boðleiðir innan stéttarfélaga eru mun styttri og þessu fylgir meiri styrkur. Útgerðin er alltaf að færast á færri hendur við bregðumst líka við því með því að sameinast.“

Jónas segir að stóra ágreiningsmálið framundan í samskiptum við útgerðina sé hvort sjómenn fái réttan hlut út úr aflanum. „Fyrirtækin eru að selja og kaupa af sjálfum sér. Fiskmarkaðirnir eru hálfdauðir vegna þessa. Fyrirtækin selja svo fiskinn áfram til eigin fyrirtækja í útlöndum. Það er því verið að kroppa verulega af hlut sjómanna áður en endanlegt verð liggur fyrir. Það er svo kapítuli út af fyrir sig þegar horft er til uppsjávarveiðanna. Þar er engin verðmyndun heldur samkomulag milli útgerðarmanna og sjómanna fyrir ákveðin tímabil og þar er sjómönnum bara stillt upp við vegg.“

Það stefnir því í að það verði eitt sameinað sjómannafélag á landinu. Jónas segir að ekki sé farið að ræða það hvað nýja félagið heiti. Gömlu félögin verða öll lögð niður, þar á meðal Sjómannafélag Íslands.

„Ég vinn mikið fyrir Alþjóðasamband flutningamanna í farmannadeildinni. Umsvifin aukast stöðugt og gerð er krafa til þess að ég sinni því starfi alfarið. Ég verð því ekki í framboði hvernig sem allt fer.“