þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjögur frumvörp um fiskveiðimál að koma fram

29. nóvember 2012 kl. 13:31

Steingrímur J. Sigfússon á þingi Sjómannasambandsins í morgun.

Heildarfrumvarpið um stjórn fiskveiða er enn hjá ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarliða.

 

Steingrímur J. Sigfússon atvinnumálaráðherra sagði í ræðu á þingi Sjómannasambands Íslands að fjögur frumvörp um fiskveiðimál væru nú um það bil að koma fram á þingi. 

Tvö þeirra væru þegar komin fram. Annað væri um greiðslumiðlun sem hefði verið vandræðamál sem leysa hefði þurft. Hitt sneri að einföldum breytingum sem hann vildi helst að tækju gildi nú þegar á þessu fiskveiðiári. Þar væri annars vegar um að ræða að festa betur í sessi 15 tonna stærðarmörkin milli stóra og litla kerfisins til þess að loka gati sem menn hefðu fundið, eins og ráðherrann orðaði það. Hins vegar væru gerðar nokkrar breytingar á reglum um strandveiðar sem taka þyrftu gildi fyrir næsta veiðitímabil. 

Í þriðja lagi væri svo að koma fram frumvarp um breytingar á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, þar sem tekið væri m.a. á vigtunarreglum og Fiskistofu færðar auknar heimildir til þess að halda uppi eftirliti. 

,,Síðast en ekki síst er svo heildarfrumvarpið um stjórn fiskveiða sem nú er í skoðun hjá ríkisstjórninni og þingflokkum stjórnarflokkanna, hvernig svo sem því reiðir af,“ sagði ráðherrann og upplýsti ekki nánar um efni þess.