sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjögurra milljarða fjárfesting

16. apríl 2012 kl. 09:41

Samskip kaupa tvo gámaflutningaskip

Samskip hafa fest kaup á gámaflutningaskipunum Arnarfelli og Helgafelli sem verið hafa í siglingum fyrir félagið milli Íslands og Evrópuhafna frá ársbyrjun 2005. Um er að ræða nærri fjögurra milljarða króna fjárfestingu fyrir Samskip, að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Samskip hafa verið með Arnarfell og Helgafell á leigu frá því að þau voru smíðuð fyrir sjö árum.  Íslenskar áhafnir eru á báðum skipunum.

Arnarfell og Helgafell eru systurskip, smíðuð hjá J.J. Sietas skipasmíðastöðinni í Hamborg og taka 909 gámaeiningar. Burðargetan er allt að 11.143 tonn, þau eru 138 metra löng, 21 metra breið og ganga allt að 18,4 sjómílur á klukkustund. Þau eru í vikulegum áætlunarsiglingum til Evrópu, farið er frá Reykjavík á fimmtudagskvöldi með viðkomu í Vestmannaeyjum á leið til Immingham á Bretlandi. Þaðan er siglt til Rotterdam, Cuxhaven, Árósa, Varberg og Færeyja og komið til baka til Reykjavíkur á miðvikudagsmorgni.

Á fyrri hluta síðasta árs gengu Samskip frá kaupum á tveim nýjum gámaskipum sem einnig voru sérhönnuð fyrir félagið. Þau voru smíðuð hjá hollenska félaginu Damen, eru með 800 gáma flutningsgetu og eru í siglingum á milli Hollands og Englands og Hollands og Írlands. Kaupin á þeim var fyrsta fjárfesting Samskipa í gámaskipum í langan tíma.

Áætluð velta Samskipa á þessu ári er um 85 milljarðar króna og er um fjórðungur hennar tengdur starfsemi félagsins á Íslandi. Félagið rekur 10 gámaskip, lestarflutningakerfi, á hlut í frystiskipaútgerð, rekur vörumiðstöðvar, frystigeymslur, ógrynni flutningabíla og um 20 þúsund gáma. Samskip eru með 46 skrifstofur í 24 löndum í Evrópu, N- og S-Ameríku og Asíu og starfmenn eru um 1.100 talsins.