laugardagur, 25. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjölgar á strandveiðum

Guðsteinn Bjarnason
10. ágúst 2019 kl. 13:00

Strandveiðarnar þetta árið hafa gengið að óskum. MYND/HAG

Strandveiðar hafa gengið vel í sumar, jafnvel betur en nokkru sinni, verðið er gott og aftur er bátum á strandveiðum tekið að fjölga eftir fækkun síðustu ára.

„Ég held að margir muni átta sig á því að í strandveiði er þetta klárlega besta ár frá upphafi,“ segir Vilhjálmur Ólafsson skipasali.

„Ég er að sjá til dæmis að á stað eins og Suðureyri eru 22-23 bátar að landa bestu dagana. Þeir eru allir í strandveiðum, og það segir sig sjálft að þetta er gríðarleg lyftistöng fyrir pláss eins og Suðureyri.“

Hann segir lítinn vafa á því að fleiri muni nú nota tækifærið og kaupa sér bát til að fara á strandveiðar. Viðskiptin í bátasölunni hafi að minnsta kosti gengið vel í sumar, og það þakkar Vilhjálmur ekki síst því hve vel gengur á veiðunum.

„Þetta er búið að vera ágætis ár í sölu miðað við það sem ég átti von á, mun meira núna en í fyrra. Og það eru ekki öll kurl komin til grafar,“ segir hann.

Vilhjálmur hefur langa reynslu af bátasölu og þekkir því vel til.

„Þó ég segi sjálfur frá eru kannski fáir sem eru búnir að selja fleiri smábáta undanfarin 20 ár en ég. Þeir eru nokkrir góðir samt þarna úti.“

Hann bendir á að lengi hafi verið talað um að auðvelda þurfi nýliðun í greininni.

„Þetta er sú leið sem menn hafa talað um á tyllidögum, og klárlega er þetta að virka þannig í dag. Vonandi heldur það áfram að gera það.“

Afkoman verður góð
Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda, tekur undir það að fleiri sjái sér hag í að fara á strandveiðar þetta árið heldur en undanfarin ár.

„Það gengur vel á strandveiðunum og þetta fiskverð er alveg frábært. Við erum með fiskverð sem er að meðaltali rúmlega 30 prósent hærra en í fyrra. Auðvitað eru menn misjafnlega að ná þessum dögum sínum út af veðri og tíðarfari, en það er ljóst að það munu allir fá sína tólf daga í hverjum mánuði,“ segir hann.

„Afkoman mun verða mjög góð hjá mjög mörgum í ár. Menn náttúrlega horfa á þessar aflatölur og horfa á þessi fiskverð og sjá fyrir sér að það er grundvöllur til þess að kaupa báta og gera út á strandveiðar og bæta við sig.“

Aukinn sveigjanleiki reglukerfisins hjálpar verulega til, og nú er einnig kominn fjögur þúsund tonna makrílpottur sem allir hafa aðgang að, þótt veruleg óánægja sér reyndar meðal smábátasjómanna með fyrirkomulagið á þeim aðgangi.

Fiskistofa greindi frá því í síðustu viku að sumarið 2018 hafi verið gefin út 558 strandveiðileyfi í í sumar hafi verið gefin út 623 leyfi. Alls nýttu 19 bátar sér þá heimild að hætta fyrr á strandveiðum til að fara í fyrri útgerðarflokk.

Mestur afli á A-svæði
Í maí, júní og júlí hafa alls verið veidd 8.231.015 kg. Bróðurpartur aflans hefur verið veiddur á A-svæði, eða alls 43,5 prósent af heildarafla fyrstu þrjá mánuðina. Sjómenn á B-svæði hafa fengið 18,6 prósent, á C-svæðinu eru það  17,9 prósent á C-svæði og 20 prósent á D-svæði.

Þetta er þó nokkur fjölgun frá síðasta ári. Þá höfðu 532 bátar landað afla í lok júlí og heildarveiðin hafði þá numið 7.300 tonnum.

Þá hafa strandveiðibátar nýtt sér að landa 405 kg af ufsa í strandveiðiafla, sem fer í Verkefnasjóð og er 40,4 prósent af leyfilegri heimild.

Alls var aflaheimildin fyrir strandveiðar í sumar 11.100 tonn og fyrstu þrjá mánuðina hafa verið veidd 70,5 prósent af þeim afla.

Þá greinir Fiskistofa frá því að 259 bátar hafi veitt umfram leyfilegt magn í maí og 292 í júní, en hámarksskammtur í hverri veiðiferð eru 650 þorskígildiskíló.

Vegna umframveiðinnar hefur því verið lagt á sérstakt gjald í maí og júní mánuði á 61.207 þorskígildiskíló og gerir það alls 17.304.191 krónur.