föstudagur, 27. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjölgun á strandveiðum í sumar

11. júlí 2019 kl. 14:20

Hærra fiskverð og lægra veiðigjald eiga sinn þátt í því að fleiri halda til strandveiða þetta árið, eftir fækkun undanfarin ár.

Fleiri bátar hafa verið á strandveiðum í sumar miðað við sama tíma á síðasta ári. Í gær, miðvikudag, þegar sex dagar voru liðnir af tímabilinu, voru 607 bátar komnir með leyfi á móti 536 bátum í fyrra, og þar af voru 590 bátar búnir að landa afla en í fyrra voru þeir orðnir 512 á sama tíma.

„Þarna munar töluverðu, þeim hefur fjölgað um 13 til 14 prósent sýnist mér,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

„Þetta er viðsnúningur frá því sem verið hefur, bátunum var að fækka en nú fjölgar þeim sem er hið besta mál.“

Skýringarnar á þessari fjölgun geta verið ýmsar, en Örn nefnir að bæði hefur fiskverðið hækkað mikið og veiðigjöldin jafnframt lækkað töluvert.

„Síðan hefur verið erfitt að fá kvótaleigu og svo núna geta þeir sagt sig frá veiðunum fyrir 20. hvers mánaðar og farið þá á kvóta eða annað.“

Í heildina hafa bátarnir veitt 5.993 tonn sem er 737 tonnum meira en á sama tíma í fyrra.

Örn segir það hins vegar athyglisvert að aflinn á hvern bát er að meðaltali minni nú en í fyrra, þótt ekki muni miklu. Þetta eru 10,2 tonn sem hver bátur hefur veitt að meðaltali, en á sama tíma í fyrra voru það 10,3 tonn.

„Það er aðeins svæði D sem er búið að fiska meira per bát, 9,7 tonn á móti 8,9.“

Þannig að eitthvað hefur nú ræst úr á D-svæðinu þrátt fyrir svartsýni sem þar gætti í vor.

Þá hafa alls 279 bátar náð að veiða meira en tíu tonn það sem af er, sem er tuttugu bátum fleira en í fyrra, og munar þar mestu á svæði D.

Þá segir Örn strandveiðimenn hafa getað nýtt sér 15,6 daga af veiðitímabilnu, sem er örlítið minna en í fyrra.

Hann vekur athygli á því að „dagamengi í strandveiði“, það er hversu marga daga leyfilegt var að nota til strandveiða, var lítið í júní. Reglurnar segja til um að strandveiðar megi hver bátur stunda samtals 12 daga innan hvers mánaðar, en einungis er leyfilegt að veiða á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum.

„Þeir höfðu ekki nema 14 dögum úr að moða í júní, en núna í júlí er dagamengi strandveiðanna 19 dagar.“

Erfið tíð
Tíðin hefur hins vegar verið erfið til veiða, en almennt segir Örn sjómenn ánægða með strandveiðarnar og gott hljóð í þeim.

„Síðan reiknum við með því að allt komi þetta til endurskoðunar í haust,“ segir hann og nefnir þar að tryggja þurfi að strandveiðimenn geti örugglega veitt í 48 daga, og að lengja þyrfti tímabilið úr fjórum mánuðum í sex.