mánudagur, 30. mars 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjölmargar fisktegundir í lögsögu ESB taldar vera í hættu

20. september 2011 kl. 10:55

Evrópusambandið

Um 90% nytjastofna í Miðjarðarhafi talin vera ofnýtt

Fjölmargar fisktegundir í lögsögu ESB eru enn taldar vera í hættu. Þá er gagnasöfnun verulega ábótavant þannig að ekki er hægt að leggja vísindalegt mat á ástand 63% þeirra 180 fisktegunda sem ESB-ríki nýta. Þessar upplýsingar koma fram á vef IntraFish.

Fyrr í þessum mánuði var haldinn samráðsfundur þeirra sem fara með stjórn fiskveiðimála innan ESB. Þar voru þessar og fleiri staðreyndir lagðar fram. Þarna var líka síðasta tækifæri fyrir þá sem hafa hagsmuna að gæta að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en heildaraflamark verður ákveðið fyrir árið 2012.

Ekki voru allar fréttir á fundinum vondar, að minnsta kosti ekki hvað Norðursjóinn varðar. Til dæmis fjölgar þeim tegundum í Norðursjó sem fullnægjandi gögn liggja fyrir um svo unnt sé að leggja vísindalegt mat á hámarksnýtingu. Þá hefur tegundum í flokknum „ekki ofveiddar“ fjölgað úr 2 í 13. Engu að síður, þótt ástandið hafi batnað lítilsháttar, eru samt tegundir svæði í Norðursjónum þar sem fiskstofnar standa höllum fæti.

Í Miðjarðarhafinu er ástand fiskstofna sérstaklega alvarlegt. Þar eru 90% nytjastofna talin vera ofnýtt. Smáfiskadráp og veiðar á ókynþroska fiski koma í veg fyrir að fiskstofnar nái sér á strik. Þarna vantar einnig tilfinnanlega nauðsynlegar upplýsingar, svo sem löndunartölur og áætlað brottkast, til að hægt sé að leggja mat á veiðiþol stofna.

Á fundinum voru jafnframt lagðar fram skýrslur um afkomu fiskveiða. Heildartap útgerðarfyrirtækja í ESB-ríkjunum nam var 5% árið 2009. Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum var afkoma bjálkatogara bágbornust, þar á eftir komu veiðar í botntroll. Önnur veiðarfæri gáfu betri afkomu. Varðandi afkomutölur þá er gagnasöfnun gloppótt eins og í tilviki fiskveiða. Lönd eins og Grikkland og Spánn gefa brotakenndar upplýsingar eða alls engar um afkomu útgerðarinnar.