sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjölmenningin er stór áskorun

Guðjón Guðmundsson
20. apríl 2019 kl. 07:00

Árið 2018 varð einungis eitt fjarveruslys í einu af þeim þremur fiskvinnsluhúsum sem Þorbjörn rekur.

Fiskvinnslustarfsmenn á Íslandi af 40 þjóðernum.

Björn Halldórsson, öryggisstjóri Þorbjarnar í Grindavík, segir fjölmenninguna stóra áskorun í öryggismálum. Skv. Hagstofu Íslands eru alls um 40 þjóðerni sem starfa í íslenskum sjávarútvegi og hann segir að á einhvern hátt verði að aðlagast og  koma skilaboðunum áleiðis. Hann sér jafnframt í framtíðinni að Vinnueftirlitið tæki að sér leiðsögn í ríkari mæli til fyrirtækja um öryggismála í stað þess að gegna einvörðungu eftirlitshlutverki.

Björn réðst til starfa hjá Þorbirni sem öryggisstjóri árið 2017 og hefur tekist með góðu samstarfi við starfsmenn að lækka slysatíðni hjá fyrirtækinu verulega. Nálægt um 80% starfsmanna í fiskvinnslu Þorbjarnar eru af erlendu bergi brotnir.

Björn starfaði í mörg ár sem slökkviliðs og sjúkraflutningamaður. Í störfum sínum erlendis, bæði í suð vestur asíu og í miðausturlöndum hefur hann komið að margs konar kennslu og þjálfunarverkefnum.  Í lok árs 2009 réði hann sig til starfa í Afghanistan á vegum NATO. Verkefnið var að þjálfa upp afganska slökkviliðsmenn og koma alþjóðaflugvellinum í Kabúl aftur í hendur heimamanna eftir innrás Bandaríkjamanna og gera þá sjálfbæra í rekstri flugvallarins og slökkviliðsins. Þar kynntist Björn  því viðfangsefni að kenna og uppfræða fólk úr allt annarri menningu og með framandi tungumál, venjur og hefðir. Hann dvaldist í Kabúl í tæp þrjú ár.

Lært með höndunum

„Strax frá byrjun kom í ljós að nota þarf allt aðrar kennsluaðferðir en þegar verið er að kenna samlöndum. Kennslan kallar á meira verklegt nám, að sýnt sé hvernig staðið sé að hlutum og að láta nemendur framkvæma þá. Við reynum að beita þessum aðferðum hérna hjá Þorbirni. Bóklegt nám hentar ekki öllum og þá sérstaklega ekki fólki sem hefur ekki alist upp í menntasamfélaginu með fullri virðingu fyrir þeim sem ekki hafa gengið í háskóla. Kennsluaðferðirnar sem virðast virka best eru að læra hlutina í höndunum. Þorbjörn lítur á það sem skyldu sína að kenna nýjum starfsmanni, hvort sem það er í fiskvinnslu eða á sjó, hvernig hlutirnir virka og leyfa honum að upplifa það undir verkstjórn reyndari starfsmanns áður en hann öðlast sjálfstraust til þess að framkvæma verkin sjálfur. Starfsmaður sem hefur ekki sjálfstraust er hættulegur sjálfum sér og öðrum,“ segir Björn.

Hann segir að erlendir starfsmenn tjái sig um vinnutengd málefni frekar við samlanda sína en aðra. Ástæðan er sú að erfiðlega hafi gengið að gefa öllum starfsmönnum rödd.

Greiður aðgangur

„Það er alveg skýrt hjá okkur hjá Þorbirni og við upplýsum okkar starfsmenn um það að allir starfsmenn fyrirtækisins eigi rétt á því að láta í sér heyra og leggja niður störf ef öryggi viðkomandi eða annarra á vinnustöðinni er ógnað. Við stöðvum aldrei þessa boðleið inn til verkstjóra eða öryggisstjóra. Ef eitthvað er að viljum við vita af því áður en eitthvað gerist. Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að fyrirbyggja öll slys. Starfsmenn eru minntir á þetta á hverjum einasta öryggisfundi og allir starfsmenn eiga greiðan aðgang að næsta yfirmanni eða jafnvel inn á skrifstofu forstjóra með sín mál.

Gríðarleg mikilvægt er að stjórnendur  sýni gott fordæmi og séu meðvitaðir um eigin ábyrgð í öryggismálum og felst sú ábyrgð í því að tryggja sitt eigið öryggi jafnt og öryggi annarra starfsmanna og allra þeirra sem að starfseminni koma“ segir Björn. Þorbjörn hefur undanfarin ár átt mjög gott samstarf við Sjómannaheilsu. Starfsemi þeirra felst í trúnaðarlækningum fyrir starfsmenn fyrirtækisins og tryggir þeim án tafar aðgang að færum sérfræðingum ef slys eða veikindi ber að höndum.

Slysatíðni hjá Þorbirni hefur í gegnum tíðina verið með lægra móti í samanburði við sambærileg fyrirtæki, að sögn Björns. Engu að síður rauk slysatíðnin upp árin 2014, 2015 og 2016 án þess að nokkrar viðhlítandi skýringar hafi fundist á því. Rekstrarfyrirkomulagið var óbreytt þessi ári, sama velta var í gegnum fiskvinnsluhúsin og skipakosturinn svipaður. Björn segir að stjórnendur og starfsfólk Þorbjarnar hafi í gegnum tíðina ávallt sýnt öryggismálum mikinn áhuga.

90% minni bætur og kostnaður

Í skugga hækkandi slysatíðni var Björn ráðinn inn sem öryggisstjóri á grundvelli þekkingar hans á öryggis- og forvarnarmálum til þess að leiða málaflokkinn innan fyrirtækisins. Þegar upphæðir greiddra slysabóta og tjónakostnaðs vátryggingafélags Þorbjarnar á árinu 2015 og 2018 eru bornar saman sést að þær hafa dregist saman um um það bil 90%. Þetta leiðir til lækkandi iðgjalda en sýnir umfram annað öruggara vinnuumhverfi starfsmanna. Árið 2018 varð eitt fjarveruslys í einu af þeim þremur fiskvinnsluhúsum sem Þorbjörn rekur. Tvö fjarveruslys urðu á skipum Þorbjarnar. Annar sjómaðurinn missti af einni veiðiferð en hinn, sem fótbrotnaði, missti úr nokkrar veiðiferðir.

„Við þetta skapast einnig rými til þess að fjárfesta meira í öryggismálum, endurbótum á lífbjörgunarbúnaði, viðhaldi á tækjum og í almennum verkefnum sem tengjast öryggismálum. Lykillinn að þessum árangri er samtalið við starfsfólkið og að fá það til þess að hugsa um öryggismál og hnippa í náungann ef þörf krefur. Starfsfólkið okkar hefur ákvað mjög fljótt að láta sig öryggismál varða þegar opnað hafði verið á samtalið“.

Öryggisráð SFS

Björn segir samstarf við önnur sjávarútvegsfyrirtæki gríðarlega mikilvægt. Verði slys hjá einu fyrirtæki sé líklegt að svipað slys verði hjá öðru fyrirtæki. Öryggisstjórar í stóru sjávarútvegsfyrirtækjunum miðla milli sín upplýsingum á fundum öryggisráðs innan Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Björn er formaður ráðsins sem kemur saman fjórum sinnum á ári. Á fundunum er farið yfir stöðu mála, rýnt í slys og fjallað um fyrirbyggjandi aðgerðir ásamt öðrum verkefnum í þágu greinarinnar.

Eins og fram kemur í viðtali við Kristinn Tómasson, yfirlækni Vinnueftirlitsins, á öðrum stað í blaðinu hefur slysatíðni innan fiskvinnslunnar haldist há og jöfn í mörg ár. Björn segir að stóru sjávarútvegsfyrirtækin séu farin að tilkynna hvert einasta slys til Vinnueftirlitsins. Þar sé þó nokkur fjöldi slysa skilgreindur sem „önnur slys“ og unnið sé markvisst að því að eyða þessum flokki og skilgreina með nákvæmari hætti hvernig slys ber að. Með þessu fengist betri yfirsýn yfir það hvar beita eigi forvörnum. Skráningar hafa þar með aukist og orðið markvissari.

Óska samstarfs við Vinnueftirlitið

„Sjávarútvegsfyrirtækin í landinu óska eftir meira samstarfi við Vinnueftirlitið um forvarnir. Eins og stofnunin er uppbyggð núna er hún fremur rannsakandi. Við viljum geta leitað til Vinnueftirlitsins um ráðleggingar, til dæmis þegar við innleiðum nýjan vélbúnað eða breytum vinnslunum. Það væri gott að geta leitað til Vinnueftirlitsins í því ferli því þá hefðum við betri upplýsingar um hvernig eigi að standa að málum. Það gæti leyst umfangsmikil og kostnaðarsöm mál fyrir fyrirtækin og Vinnueftirlitið ef við hefðum aðgang að leiðbeininandi ráðgjafa frá stofnuninni fyrir þau atriði að vera í lagi við skoðun því betur sjá augu en auga“.

Í fyrravor óskaði öryggisráð SFS eftir frekara samstarfi við Vinnueftirlitið á þessum nótum en eins og öðrum ríkisstofnunum er stofnuninni þröngt sniðinn stakkurinn. Öryggisráð SFS hefur gefið út handbók um öryggismál sem unnin var í samstarfi við Verkís. Öryggishandbókin stendur öllum sjávarútvegsfyrirtækjum sem eiga aðild að SFS til boða til þess að sníða að sínum rekstri í málaflokkinum. Hún tekur til flestra þátta hvað varðar öryggismál í sjávarútvegi, bol- og uppsjávarverksmiðjur ekki síður en mjölverksmiðjur. Bókin er notuð til fræðslu og nýliðafræðslu hjá Þorbirni. Reglulega kemur Vinnueftirlitið í skoðun í sjávarútvegsfyrirtækin og með virku innra eftirliti fyrirtækisins myndast auknar líkur á því að vélbúnaður standist kröfur eftirlitstins.

„Haldi fyrirtækin áfram að sýna metnað í öryggismálum, sem er málaflokkur sem stöðugt þarf að vera til umfjöllunar, held ég að framtíðin sé mjög björt.“