þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjölskyldufyrirtæki ráðandi í sjávarútvegi

Guðsteinn Bjarnason
25. febrúar 2019 kl. 12:00

Laufey Guðmundsdóttir tók í haust saman upplýsingar um fimmtíu stærstu útgerðarfélög landsins og birti niðurstöðurnar í MS-ritgerð sinni í verkefnastjórnun við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Af fimmtíu stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins fiskveiðiárið 2017 til 2018 eru 37 fjölskyldufyrirtæki, eða 77 prósent. Einungis sex af þessum fimmtíu stærstu félögum eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu, eða fimm í Reykjavík og eitt í Hafnarfirði. Þrjú þeirra eru fjölskyldufyrirtæki, þannig að af 92 prósent fjölskyldufyrirtækjanna 37 eru staðsett utan höfuðborgarsvæðisins.

Þetta kemur fram í MS-ritgerð Laufeyjar Guðmundsdóttur. Hún er alin upp í sjávarþorpi og hefur unnið töluvert í fiski.

„Ég hef gríðarmikinn áhuga á sjávarútvegi, ekki síst á stöðu kvenna. Hlutur þeirra er alltof lítill,“ segir hún.

Ákvörðun hennar um að kanna mikilvægi og stöðu fjölskyldufyrirtækja í sjávarútvegi spratt upp úr þessu, en hún gerði rannsókn sína í ágúst og september síðastliðinn.

Athygli vekur að þau fyrirtæki af þessum fimmtíu stærstu sem helst standa höllum fæti eru öll fjölskyldufyrirtæki. Laufey segir að spennandi verði að fylgjast með þeim, sjá hvernig þeim vegnar, hvort þau muni sameinast öðrum fyrirtækjum. „Við höfum verið að sjá hverja sameininguna á fætur annarri, fyrirtækin ná ekki að halda sínu gagnvart þeim stóru.“

Oft í eigu nánustu fjölskyldu
Þessi 50 stærstu útgerðarfélög landsins eru samtals með 88 prósent heildarkvóta útgerðarinnar, og þar af eru fjölskyldufyrirtækin með tæp 60 prósent heildarkvótans. Þá voru fjölskyldufyrirtækin 37 samtals með 116 milljarða í heildarveltu og 15 milljarða í hagnað, en þau 13 sem ekki eru í fjölskyldueign voru með 75 milljarða heildarveltu og 9 milljarða hagnað.

Eins og sést á súluritinu er velta og hagnaður fjölskyldufyrirtækjanna almennt hlutfallslega minni en velta og hagnaður hinna fyrirtækjanna 13, sem ekki eru fjölskyldufyrirtæki.

„Við gerð þessarar rannsóknar varð ljóst að þau fyrirtæki sem flokkuðust sem fjölskyldufyrirtæki voru oft í eigu nánustu fjölskyldu,“ segir í ritgerð Laufeyjar. „Augljóst er að fjölskyldufyrirtæki eru ríkjandi í sjávarútvegi á Íslandi og eru þau því mikilvæg fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf.“

Rannsóknir skortir

Laufey segir rannsóknir skorta á fjölskyldufyrirtækjum á Íslandi, bæði almennt og ekki síður í sjávarútvegi sérstaklega.

„Það væri áhugavert að skoða nánar hvort fjölskyldufyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi séu hagkvæmari í rekstri heldur en þau fyrirtæki sem ekki eru í eigu fjölskyldu,“ segir hún og leggur einnig til að rannsakað verði „hvort smá fjölskyldufyrirtæki í sjávarútvegi nái ekki að stækka og haldast á sama tíma innan fjölskyldunnar; hvort fjölskyldur sjái það sem betri kost að selja fyrirtækið heldur en að hleypa utanaðkomandi aðilum inn í reksturinn.“

Laufey vitnar til erlendra rannsókna sem sýna að fjölskyldufyrirtæki standi undir 70 til 90 prósentum af allri heimsframleiðslunni. Hún bendir þó á að mismunandi skilgreiningar séu til á því hvað telst vera fjölskyldufyrirtæki.

Einnig eru skiptar skoðanir á því hvort það sé almennt kostur eða galli að fyrirtæki sé rekið af fjölskyldu. Kostirnir séu ekki síst þeir að innan þeirra ríkir oft samheldni og gagnkvæmt traust, innra eftirlit sé oft gott og þar af leiðandi minni rekstrarkostnaður. Hins vegar geti myndast þar svokallaður umboðsvandi sem felst í því að stirt samband eigenda við starfsfólk geti orðið til þess að þau markmið sem eigendur hafa sett fyrirtækinu nást ekki.

Allt að hundrað ára gömul
„Höfundur telur að ekki sé mikið um umboðsvanda þegar kemur að litlum íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum þar sem oft er um að ræða nána fjölskyldu þar sem allir hafa það að sameiginlegu markmiði að fyrirtækinu gangi vel og arðsemin verður eftir því,“ segir í ritgerð Laufeyjar.

„Ef litið er á íslensk sjávarútvegsfyrirtæki þá hafa mörg þeirra lifað og dafnað í allt að 100 ár sem má teljast mjög gott. En einkennandi fyrir smá sjávarútvegsfyrirtæki sem flokkast sem fjölskyldufyrirtæki er það að fjölskyldumeðlimir eru þátttakendur í rekstrinum og ef til vill er ástæðan fyrir því að þessum fyrirtækjum hefur vegnast vel í gegnum árin sú að traust og góð eftirfylgni hefur leitt af sér sterk og stöðug fjölskyldufyrirtæki,“ segir í ritgerðinni.