mánudagur, 18. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjórar tegundir teljast ágengar

20. ágúst 2019 kl. 14:50

Grjótkrabbi hefur náð undraverðri útbreiðslu á tæpum tveimur áratugum. Mynd/Sindri

Mis velkomnir gestir við Íslandsstrendur.

Á Íslandsmiðum hafa verið skráðar 22 framandi tegundir síðustu sex áratugi, þar af níu á síðasta áratug. Um fjölbreyttar tegundir er að ræða með fulltrúum úr hópum plöntusvifs, stórþörunga, krabbadýra, samloka, möttuldýra og fiska.

Frá þessu segir í skýrslu Hafrannsóknastofnunar - Ástand nytjastofna sjávar og ráðgjöf 2019.

Af þessum tegundum bárust 12 þeirra fyrst á Íslandsmið á árunum 1950–1999 en sex tegundir bárust hingað fyrst á árunum 2000–2016. Fjórar þessara framandi tegunda - sagþang, grjótkrabbi, sandrækja og flundra - geta talist ágengar á Íslandsmiðum, eða hætt er við því að þær verði það, þar sem þær hafa gjarnan neikvæð áhrif á ný svæði sem þær gera að heimkynnum sínum.

Þessar framandi tegundir hafa að öllum líkindum verið fluttar á Íslandsmið, t.d. sloppið út með kjölvatni skipa, enda hafa flestar þeirra fyrst verið skráðar við Suðvesturland þar sem ferðir flutningaskipa eru tíðastar.

Hækkandi hitastig á Íslandsmiðum síðustu tvo áratugi hefur valdið því að fjölbreyttara safn landnemategunda getur sest hér að, segir jafnframt í skýrslu Hafrannsóknastofnunar.

Hringar landið brátt

Landtaka grjótkrabbans hér við land er með nokkrum ólíkindum og athyglisverð í þessu samhengi. Eins og Fiskifréttir hafa greint frá þá eru leiddar að því líkur að grjótkrabbinn - sem norður-amerísk krabbategund – hafi borist hingað til lands með kjölfestuvatni flutningaskips um aldamótin 2000. Á þeim stutta tíma sem er liðinn síðan hefur grjótkrabbinn numið land á um 70% strandlengju Íslands.

Fyrsti fullorðni grjótkrabbinn fannst árið 2006 í Hvalfirði af áhugakafara, Pálma Dungal, sem með árvekni sinni áttaði sig á því að krabbinn sem hann hitti fyrir á botni fjarðarins var frábrugðinn þeim tegundum krabba sem hann hafði hitt fyrir áður. Vakti hann athygli sérfræðinga á fundi sínum, og síðan þá hafa staðið yfir umfangsmiklar rannsóknir og skráning á útbreiðslu tegundarinnar sem er undraverð, en á vissum svæðum þar sem grjótkrabbi finnur hagfelld skilyrði er hann fjölliðaðri en í upprunalegum heimkynnum sínum við austurströnd Bandaríkjanna og Kanada. Grjótkrabbi hefur hvergi fundist utan náttúrulegra heimkynna sinna, nema hér við Ísland.

Dæmafá aðlögunarhæfni

Líffræðingarnir Sindri Gíslason og Halldór Pálmar Halldórsson, gerðu landnám og uppgang grjótkrabbans að umtalsefni á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar Íslands í fyrra. Í máli þeirra kom fram að grjótkrabbinn hefur dæmafáa aðlögunarhæfni. Hann getur sætt sig við hitastig í sjó sem er á bilinu núll til 32 gráður, en er algengastur þar sem hitinn er fjórar til 14 gráður.

Dýpið lætur hann ekki heldur vefjast fyrir sér en hann finnst frá fjöruborði niður á allt að 751 metra dýpi. Helst velur hann sér þó búsetu á átján til 390 metrum og þá á grjót- leðju eða sandbotni, allt eftir aðstæðum. Hann étur svo allt sem að kjafti hans kemur – hann er með öðrum orðum alæta.