mánudagur, 9. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjórða árið sem ekkert banaslys verður til sjós

Guðjón Guðmundsson
26. janúar 2018 kl. 18:00

Sú tíð er liðin að minna þurfi sjómenn á notkun hjálma og líflína við sín störf. MYND/AÐSEND MYND

Slysum fækkar um 37% milli ára

Ekkert banaslys varð til sjós í fyrra. Þetta er fjórða árið sem engin lætur lífið úti á sjó við Ísland en hin árin eru 2008, 2011 og 2014. Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, segir þetta gríðarlega góðan árangur. Þessu til viðbótar hafi slysum almennt fækkað verulega til sjós. Á árinu 2016 var tilkynnt um 213 slys til sjós til Sjúkraskrár Íslands. Um síðustu áramót hafði verið tilkynnt um 134 slys sem er 37% minnkun milli ára.

Einnig hefur orðið fækkun á tilkynningum um slys til Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Jafnan berast færri tilkynningar til Rannsóknarnefndarinnar en Sjúkraskrár en hlutfallslega er fækkun tilkynningu áþekk.

Margir hafa orðið til þess að benda á áhrif Slysavarnaskóla sjómanna í þessum efnum. Hann er í eigu Slysavarnafélagsins Landsbjargar og var stofnaður 1985. Algjör bylting hefur orðið í uppfræðslu og kynningu á forvörnum og öryggismálum sjómanna eftir stofnun hans. Ekki var vanþörf á því í ljósi hörmulegrar sjóslysasögu Íslands.

Hilmar Snorrason hefur verið skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna frá árinu 1991. Hann man tímana tvenna. Þá var haft á orði að einungis væri vitað um eina stétt sem væri hættulegri en sjómennska og það væri skógarhögg. Sjóslysasaga Íslands er rakin í bókum eins og Þrautgóðir á raunastund og Öldinni okkar en sem betur fer hefur ástandið batnað til muna.

Brotalöm í gerð áhættumats

„Það eru allir farnir að vinna mun meira í öryggismálum en áður var. Við sjáum smáar útgerðir sem stórar ráða í stöður öryggisstjóra og taka öryggismálin föstum tökum. Tryggingafélögin hafa einnig sem endranær lagt sitt af mörkum til fækkunar slysa. Það eru allir að vinna að sama markmiði; stéttarfélögin, stjórnvöld, siglingayfirvöld og síðast en ekki síst sjómennirnir sjálfir.“

Þrátt fyrir mikla fækkun tilkynntra slysa er slysatíðni ennþá há meðal sjómanna. Hilmar segir að til þess að enn betri árangur náist um borð í skipum verði menn að fara taka sig verulega á í gerð áhættumats. Þar sé brotalöm. Gerð er krafa um áhættumat í skipum þannig að farið sé yfir vinnuferla og horft sé gagnrýnum augum á vinnuumhverfið og vinnustaðinn í heild sinni.

„Þegar ég byrjaði í þessu starfi fyrir rúmum 26 árum stóðum við í stappi við sjómenn um notkun hjálma, líflína og annars öryggisbúnaðarr sem allir líta nú á sem sjálfsagðan hlut. En mörg ár tók að koma þessum málum í lag. Menn sem vinna úti á þilfari fiskiskipa eru með öryggishjálma, líflínu, klæðast sýnileikafatnaði og eru með björgunarvesti. Þetta er búnaðurinn sem kostar smáaura samanborið við kostnaðinn af banaslysum.“

Áhættumat öflugt verkfæri

Hilmar segir að þrátt fyrir miklar framfarir á þessu sviði verði menn að gera sér grein fyrir því hve öflugt verkfæri vel unnið áhættumat sé. Í því felst að skoða skipið með gagnrýnum hætti sem vinnustað, greini verkferla og umhverfisáhrif. Í framhaldinu finni áhöfnin sjálf leiðir til þess að draga úr hættunni. Nauðsynlegt sé að gera skriflegt áhættumat á pappírsformi svo nýir áhafnarmeðlimir geti lesið sig til um þær hættur sem eru til staðar um borð í skipinu. Krafa um gerð áhættumats hvílir á útgerðinni. Skipstjóri er framkvæmdavald útgerðar og á að sjá til þess að áhöfnin geri áhættumat.

Slysalaus framtíð

„Ég sé fyrir mér að á næstu árum verði þróunin á þann veg að engin slys verði úti á sjó. Og það er mun styttra í það en margur heldur. Vitund sjómanna um öryggismál hefur tekið stakkaskiptum og það eru þeir sem breyta ástandinu til hins betra. Þeir gætu gert mig atvinnulausan og þá yrði ég ánægður,“ segir Hilmar.

Bent hefur verið á að fækkun í áhöfnum skipa auki hættu á slysum. Hilmar bendir þó á að með nýrri tækni og nýjum skipum fylgi oft fækkun í áhöfn. Á skipum sem smíðuð voru til dæmis um miðja síðustu öld voru oft 25-30 manns í áhöfn. Tækninni fleygi fram og það fækki bæði í brú og vél og dekki. Við taki tölvutækni og tækjabúnaður sem er að meira en minna leyti fjarstýrður. Þess vegna sé ekkert óeðlilegt að breytingar verði í stærð áhafna en spurningin sé ávallt sú hve langt sé hægt að ganga. Hvert tilvik þurfi að skoða sérstaklega með tilliti til aðstæðna.

Vaktir og hvíldartími

Hilmar segir að reglur séu um vinnu- og hvíldartíma um borð í skipum. Vandinn sé hins vegar sá að sjómenn á fiskiskipum haldi sjaldnast utan um vinnu- og hvíldartíma sinn. Á kaupskipum verði menn hins vegar að skrá niður allan sinn vinnu- og hvíldartíma. Sé ekki farið að þessum reglum er hægt að stöðva skipið við hafnarríkisskoðun og beita refsiákvæðum. Kröfurnar eru þannig mun strangari gagnvart kaupskipum en fiskiskipum. Hilmar hvetur sjómenn á fiskiskipum til þess að skrá niður vinnu- og hvíldartíma.

Margskonar fyrirkomulag á vöktum er einnig athugunarefni að mati Hilmars. Algengt vaktakerfi hafi verið 6:6 en síðan hafi margir prófað að taka upp 8 klst vaktir með 8 klst hvíld. Meginþorri þeirra sem hafi tekið upp þetta vaktakerfi sé ánægður með það. Þeir telji sig njóta meiri hvíldar með þessu kerfi sem hentar þó ekki jafn vel þeim sem eru í stuttum róðrum. Á hinn bóginn er hefð fyrir því að skipstjórnendur séu á 12 tíma vöktum með 12 tíma hvíld.

„Það virðist ennþá sterk hefð fyrir þessu. Maður sem stendur 12 tíma vaktir er orðinn þreyttur í lok vaktar. Rannsóknir sýna líka að eftir því sem lengra líður á túra með svona löngum vöktum þreytast menn meira. Þetta eru þeir sem stjórna skipinu og þeir eru jafnvel orðnir þreyttir. Skipstjórnandi sem lendir í neyðarástandi rétt fyrir vaktaskipti er ekki eins vel undirbúinn og hvíldur maður. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að skipstjórnendur taki einnig upp 8:8 vaktir,“ segir Hilmar.