sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjórða skipið frá Kleven væntanlegt

12. júlí 2018 kl. 07:00

Cuxhaven, eitt hinna nýju skipa frá norsku skipasmíðastöðinni. MYND/ÞB

Samherji kaupir breska dreifingarfyrirtækið Collins og UK Fisheries fær brátt nýtt skip.

Norska skipasmíðastöðin Kleven mun á næstunni afhenda UK Fisheries nýjan togara, 80 metra langan og 16 metra breiðan. UK Fisheries er til helminga í eigu dótturfélags Samherja á móti dótturfélagi Parlevliet & Van Der Plas B.V í Hollandi. Fréttavefurinn Undercurrent News greinir frá þessu.

Nýja skipið er sömu gerðar og þrjú önnur skip, sem Kleven hefur smíðað fyrir félög í eigu Samherja erlendis. Fyrr á þessu ári fengu frönsku fyrirtækin Compagnie des Peches í Saint Malo og Euronor afhent togarann Emeraude, en bæði þessi fyrirtæki eru að hluta í eigu UK Fisheries.

Á síðasta ári voru það síðan frystiskipin Berlin og Cuxhaven sem Kleven afhenti þýska félaginu Deutsche Fischfang Union, en þessum glæsilegu skipum var gefið nafn við hátíðlega athöfn í Cuxhaven í janúar síðastliðnum.

Samherji er síðan þessa dagana að kaupa breska dreifingarfyrirtækið Collins sem um árabil hefur keypt sjófryst þorskflök í stórum stíl af Samherja.

Undercurrent News greinir einnig frá þessu og segir samninga hafa tekist í síðustu viku.

Collins selur þorskflökin til Fish and Chips skyndibitastaða, einkum í norðausturhluta landsins, en fiskur og franskar er enn í dag langvinsælasti skyndibiti Breta.

gudsteinn@fiskifrettir.is

Viðbót:

Samherji hefur í dag sent frá sér tilkynningu um kaupin á Collins Seafood:

„Samherji hefur keypt markaðs- og dreifingarfyrirtækið Collins Seafood og tekið við rekstrinum frá 1. júlí. Collins Seafood er með höfuðstöðvar í Newton Aycliffe, Duram, suður af Newcastle í Englandi og er einnig með dreifingarstöð í Leeds.  Fyrirtækið selur og dreifir sjófrystum flökum í mið og norður Englandi til fjölda viðskiptavina sem eru aðallega „fish and chips“ veitingastaðir.

Collins Seafood var stofnað fyrir 35 árum síðan af Richard Collins sem mun eftir söluna áfram gegna hlutverki framkvæmdastjóra hjá fyrirtækinu og sjá um rekstur þess.  Velta fyrirtækisins á síðasta rekstrarári var rúmlega 60 milljónir punda og seldi það yfir 10.000 tonn af sjófrystum afurðum frá Noregi, Rússlandi, Íslandi, Færeyjum og víðar. Collins Seafood hefur til fjölda ára verið stór viðskiptavinur Samherja í Englandi. Hjá fyrirtækinu vinna rúmlega 30 manns á skrifstofu og við dreifingu. 

Seagold, sölufyrirtæki Samherja í Englandi, hefur í 21 ár séð um sölu og markaðssetningu afurða Samherja á breska markaðnum og mun áfram vinna náið með Collins Seafood að þeim verkefnum. Með kaupunum hefur Samherji styrkt stöðu sína enn fremur á þessum mikilvæga markaði fyrir þorsk og ýsu.“