mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjórði hver starfsmaður kona

10. desember 2018 kl. 17:40

Rúmlega 80% starfa í sjávarútvegi eru á landsbyggðinni

Störfum í sjávarútvegi hefur fækkað um rúmlega helming frá því að þau voru hvað flest þegar horft er á síðastliðna þrjá áratugi.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandabanka: Íslenskur sjávarútvegur 2018.

Þar segir að frá þeim tíma hafi konum í greininni fækkað hlutfallslega meira en körlum.

Á árinu 2017 voru 1.700 konur starfandi í sjávarútvegi eða um 25% af vinnuafli greinarinnar. Þá eru konur mun algengari í fiskiðnaði en í fiskveiðum en þar hefur störfum fækkað umtalsvert hraðar en í veiðum.

Um 83% af störfum í sjávarútvegi á árinu 2017 voru á landsbyggðinni.

„Undanfarna áratugi hefur hlutfallsleg fækkun starfa verið mun jafnari eftir búsetu en eftir kyni en hlutfallslega fleiri störfum hefur fækkað á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Fækkun starfa í sjávarútvegi vegur mun þyngra á landsbyggðinni enda eru rúmlega átta af hverjum tíu störfum í sjávarútvegi þar,“ segir í skýrslunni en jafnframt að fækkun beinna starfa í sjávarútvegi þurfi ekki að gefa til kynna að fjöldi starfa tengd sjávarútvegi, bæði bein og óbein, fari fækkandi um þessar mundir.