laugardagur, 29. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjórðungi minni grásleppuafli

30. apríl 2009 kl. 09:00

Grásleppuvertíðin framlengd um viku

,,Grásleppuveiðin það sem af er vertíðinni er um fjórðungi minni en á sama tíma í fyrra þrátt fyrir að bátar á veiðum séu samt talsvert fleiri núna. Innan við fimm þúsund tunnur eru komnar á land um þessar mundir,” segir Arthur Bogason formaður Landssambands smábátaeigenda í samtali við Fiskifréttir.

,,Aðalástæðan fyrir aflasamdrættinum er illviðrið sem gekk yfir Norðurland fljótlega eftir að vertíðin byrjaði og eyðilagði stóran hluta neta hjá hátt í 80 grásleppukörlum allt frá Skagaströnd og austur að Langanesi. Þetta tjón má sjálfsagt meta á samtals um 100 milljónir króna og það verða karlarnir sjálfir að taka á sig óbætt,” sagði Arthur. Hann bætti því við að grásleppuveiði úti af Vesturlandi hefði verið frekar treg.

Sjávarútvegsráðuneytið varð í gær við ósk Landssambands smábátaeigenda um að  grásleppuveiðitíminn yrði framlengdur um viku vegna aflasamdráttarins, úr 55 dögum í 62 daga.

Nánar er fjallað um grásleppuveiðar hérlendis og erlendis og verðþróun á grásleppuhrognum í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.