þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Flateyri: 42 starfsmönnum sagt upp

29. október 2010 kl. 14:31

Öllu starfsfólki fiskvinnslufyrirtækisins Eyrarodda hf., á Flateyri var sagt upp störfum í dag. Um er að ræða 42 starfsmenn. Uppsagnirnar taka gildi nú um mánaðarmótin.

Ástæða uppsagnanna er fyrst og fremst viðvarandi hráefnisskortur og erfiðleikar í rekstri sem af þeim skorti leiðir, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Eyraroddi hf. óskaði eftir greiðslustöðvun í maí á þessu ári og gildir sú heimild til 21. nóvember nk. Á því tímabili hafa forsvarsmenn félagsins leitað leiða til að styrkja og tryggja rekstrargrundvöll félagsins. Þær aðgerðir hafa ekki gengið sem skyldi og er uppsögn allra starfsmanna fyrirtækisins á þessum tímapunkti óumflýjanleg,“ segir í tilkynningunni.

Áfram verður unnið að úrlausn mála fyrirtækisins í samráði við kröfuhafa þess. Komi til þess að ástæður breytist til hins bestra á næstunni, verður leitað allra leiða til að draga uppsagnirnar til baka.

Skýrt er frá þessu á vefnum bb.is á Ísafirði.