fimmtudagur, 24. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Flestir eru sáralitlir

22. janúar 2018 kl. 08:00

Smábátar á Breiðafirði. MYND/HAG

Yfirgnæfandi meirihluti útgerða landsins greiðir einungis brot af heildarveiðigjöldum. Aðeins fjögur prósent veiðigjalda ársins 2016-17 komu frá 804 af 992 útgerðum.

Yfirgnæfandi meirihluti útgerða landsins greiðir einungis brot af heildarveiðigjöldum. Aðeins fjögur prósent veiðigjalda ársins 2016-17 komu frá 804 af 992 útgerðum. Þetta eru allt saman smærri útgerðir sem fá samtals ekki úthlutað nema samsvarandi litið brot af aflaheimildum ársins. 

Á síðasta fiskveiðiári, 2016 til 2017, greiddu alls 992 útgerðir nærri 4,6 milljarða í veiðigjöld. Um 80 prósent þeirra, eða alls 804 útgerðir, greiddu 176 milljónir samtals í veiðigjöld, eða innan við fjögur prósent af heildarupphæð greiddra veiðigjalda það ár.

Þessar 804 útgerðir greiddu allar innan við eina milljón í veiðigjöld hver, að meðaltali um 219 þúsund krónur.

Af þessum 804 útgerðum greiddu 193, eða rétt rúmlega 20 prósent allra útgerða á landinu, innan við 100 þúsund krónur hver og 23 útgerðir greiddu innan við 10 þúsund krónur hver.

Á hinn bóginn greiddu tíu stærstu útgerðir landsins um helming allra veiðigjalda ársins, og 50 stærstu útgerðirnar greiddu um 87 prósent heildarupphæðarinnar. Þetta samsvarar nokkurn veginn hlutdeild þeirra í úthlutun aflaheimilda ársins, því fimmtíu stærstu útgerðarfyrirtækin fengu úthlutað rúmlega 82 prósentum allra aflaheimilda.

Hækkar verulega
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa áætlað að veiðigjöldin á yfirstandandi fiskveiðiári, 2017 til 2018, muni verða nærri ellefu milljarðar króna, sem er ríflega tvöföldun á milli ára. Búast má við að hlutur krókaaflamarksbáta verði ríflega milljarður, haldist hlutfall þeirra svipað milli ára.

Á yfirstandandi fiskveiðiári, sem hófst 1. september síðastliðinn, verða veiðigjöld mun hærri en á síðasta ári. Það sem af er fiskveiðiárinu hafa 411 útgerðarfélög greitt samtals nærri þrjá milljarða í veiðigjöld, fyrir fyrstu þrjá mánuðina, september, október og nóvember. Veiðigjöldin eru jafnan lögð á einn mánuð í einu, og reiknuð á afla þess mánaðar, en koma síðan til greiðslu tveimur mánuðum síðar.

Veiðigjöldin í ár eru reiknuð á hagnað útgerðarinnar árið 2015, en þar sem hagnaður verður að öllum líkindum mun minni nú í ár segja útgerðir landsins að veiðigjöldin verði mjög íþyngjandi, ekki síst fyrir smærri útgerðarfélög.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa reiknað út að útgerðin í heild muni þurfa að verja nærri 40 prósentum af hagnaði sínum í veiðigjöld þetta fiskveiðiár. Og Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda, skýrði frá því í viðtali við RÚV fyrr í mánuðinum að smábátar minni en tíu tonn muni að öllum líkindum þurfa að greiða margfaldan hagnað sinn í veiðigjöld, miðað við veiðiheimildir þeirra á yfirstandandi fiskveiðiári.

Smábátar í vanda
Samkvæmt Hagstofunni voru smábátar minni en 10 brúttólestir með 71 milljón í hagnað á árinu 2015 en þurfa að greiða um 350 milljónir í veiðigjöld í ár, þegar tekið hefur verið tillit til afsláttar. Það fimmfaldur hagnaður ársins 2015, sem útgerðarmennirnir þurfa að greiða í ár.

„Veiðigjöldin núna eru algerlega fráleit sem hlutfall af verðmæti vörunnar,“ segir Axel Helgason. Hann segir öruggt að hluti smábátasjómanna muni hætta frekari útgerð verði ekki gerðar einhverjar breytingar á þessu.

„Bara frá áramótum, þann stutta tíma sem liðinn er, hef ég fengið fregnir af þremur aðilum sem ætla að leggja árar í bát og selja sínar heimildir.“

Hann smábátasjómenn í erfiðri stöðu vegna þess að veiðigjöldin taki mið af afkomu útgerðarinnar í heild. Þótt afkoma ársins 2015 hafi í heild verið mjög góð í sjávarútvegi, þá hafi smábátasjómenn átt erfitt með að sjá það fyrir hvernig álagningin myndi verða tveimur árum síðar.

„Þá þarf forsjálni í rekstri smábáta að vera sú að reyna að átta sig á því hvernig afkoma stórútgerðarinnar er, sem er síðan ekki birt fyrr en tveimur árum síðar. Hvaða forsendur hefur nokkur smábátaeigandi til að vita þetta?“

Engin lækkun vegna kvótakaupa lengur
Sú breyting hefur orðið á útreikningi veiðigjalds þetta árið að niður er felld lækkun vegna kvótakaupa. Sú lækkun nam samtals 926 milljónum á síðasta fiskveiðiári. Megnið af þeirri lækkun kom í hlut stærri útgerða. Einungis sex þeirra útgerða sem greiddu innan við milljón í veiðigjöld 2017-2018 fengu lækkun vegna kvótakaupa, og samtals nam sú lækkun rétt rúmlega tveimur milljónum króna.

Áfram er þó í gildi sá almenni afsláttur af veiðigjöldum sem gagnast minni útgerðum mest. Allir fá 20 prósent afslátt af fyrstu 4,5 milljónum álagðs veiðigjalds og 15 prósent afslátt af næstu 4,5 milljónunum. Þannig að þær útgerðir sem fá álagt veiðigjald upp á níu milljónir fá afslátt upp á 1.575 þúsund og þurfa þá aðeins að greiða 7.425 þúsund.

Samtals nam þessi afsláttur 167 milljónum fiskveiðiárið 2016 til 2017.

Var gert að greiða fjórtán krónur
Sá útgerðarmaður sem minnst greiddi í veiðigjöld fiskveiðiárið 2016 til 2017 var Sigfús Vilhjálmsson á Brekku í Mjóafirði. Alls greiddi hann 14 krónur, og hafði þá fengið fjórar krónur í afslátt því heildarálagningin á hann nam 18 krónum.

„Jú, það var nú bara til að halda veiðileyfinu á bátnum, þá þurfti ég að veiða eitthvað,“ sagði Sigfús þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn. „Af því ég hafði engan kvóta veiddi ég smávegis af rauðmaga, og það var í lagi. Ef ég ætlaði á strandveiðar eða leigja mér kvóta þarf ég að hafa veiðileyfið.“

Hann sagðist þó ekki reikna með að fara mikið á sjóinn í sumar.

„Maður er náttúrlega orðinn fullorðinn og mikið til einn með búskapinn. Ég er með svolítið af rollum og þá fer sumarið í það,“ segir Sigfús, og tekur undir það að fjórtán krónurnar í veiðigjöld séu engan veginn að sliga fjárhaginn.

„Nei, því miður var það nú ekki meira. Ég hefði gjarnan viljað veiða aðeins meira til að geta borgað eitthvað til samfélagsins meira en fjórtán kall.“

gudsteinn@fiskifrettir.is