þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fljúga ferskum makríl til Japans

Svavar Hávarðsson
8. október 2021 kl. 07:00

Frosinn er makríll verðmæt vara en enn frekar seldur ferskur. Mynd/HAG

Norðmenn hafa í fyrsta skipti flogið ferskum makríl á markað í Japan, að sögn Norska sjávarafurðaráðsins (NSC).

Greint er frá því að varan sé ætluð fyrir hina kröfuhörðu japönsku neytendur og er markaðssett undir heitinu “saba nouveau” með vísan í hið fræga franska rauðvín Beaujolais og markaðssetningu þess.

Norskur makríll, eða saba á japönsku, er vinsæl vara í Japan, en hefur hingað til verið fluttur frosinn til landsins. Japanir hafa flutt inn um 120.000 tonn af makríl árlega, en til samanburðar nefnir NSC að aðeins um 9.000 tonna af makríl sé neytt í Noregi ár hvert. Þessi nýbreytni, að flytja makrílinn ferskan, mun verða árstíðarbundin viðskipti, enda þarf hann að vera vel haldinn svo hráefnið henti japanska markaðnum. Hann er feitastur og best haldinn á haustmánuðum og því eru þessi viðskipti talin verða bundin við þrjá mánuði; september, október og nóvember.

makrílnum hefur verið flogið milli höfuðborga landanna, Osló og Tókíó, með viðkomu í Helsinki. Framtíðarsýn Norðmanna er sú að veiða makrílinn í norskri lögsögu og fljúga honum ferskum til Japan nokkrum sinnum í viku. Ekki verður um mikið magn að ræða, eins og á við um flutninga á öðru fersku sjávarfangi. Hins vegar er talið að makríllinn muni verða vinsæl vara á mörkuðum í Japan og muni gefa vel í aðra hönd – og fari á töluvert hærra verði en makríll sem fluttur er frosinn til landsins.