þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Flotinn knúinn repjuolíu eftir 10 ár?

22. mars 2012 kl. 11:00

Repjuakur á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum.

Sérfræðingar telja unnt að rækta repju í stórum stíl til framleiðslu á lífdísil

 

Tæknilega væri hægt að framleiða lífdísil úr repju ræktaðri hér á landi sem dygði til að keyra allan fiskiskipaflota landsins. Til þess þyrfti ræktunarsvæði sem samsvaraði tveimur þriðju hlutum Mýrdalssands, að því er fram kemur í grein í nýjustu Fiskifréttum.

Íslenski skipaflotinn notar um 165 þúsund tonn af skipagasolíu á ári. Áætlað er að kostnaður útgerðarinnar vegna þessa verði um 22,5 milljarðar króna á þessu ári.  

Á vegum Siglingastofnunar Íslands og samstarfsaðila er nú unnið að áhugaverðu tilraunaverkefni sem er framleiðsla á lífdísil úr repjuolíu. Jón Bernódusson, verkfræðingur og staðgengill forstöðumanns rannsókna- og þróunarsviðs hjá Siglingastofnun Íslands, hefur umsjón með þessu verkefni. Hann sagði í samtali við Fiskifréttir að innan 10 ára ætti að verða hægt framleiða lífdísil úr repju sem ræktuð væri hér á landi sem dygði fyrir allan fiskiskipaflotann ef rétt væri að málum staðið.

Til að framleiða lífdísil fyrir allan flotann þarf um 150 þúsund hektara lands sem er um 1,5% af flatarmáli Íslands. Þetta samsvarar um tveimur þriðju hlutum af Mýrdalssandi. Einn hektari af repju gefur um 6 tonn af lífmassa sem skiptist jafnt á milli stöngla og fræja, 3 tonn af hvoru. Stönglana má nota sem lífrænan áburð með því að plægja þá aftur ofan í jörðina eða nýta með öðrum hætti. Fræin eru síðan pressuð og úr þeim verða til 2 tonn af repjumjöli og eitt tonn af olíu sem nýtist jafnt sem matarolía og lífdísill. Repjumjölið er hentugt fóður fyrir eldisfisk eða dýrafóður í landbúnaði. „Vegna þess hve repjumjölið er verðmætt þá tel ég að það standi eitt og sér undir kostnaði við ræktunina og því er olían hjáafurð. Enginn annar orkugjafi, sem komið gæti í stað jarðefnaolíu, státar af slíku,“ sagði Jón.