sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Flutningaskipum verði sett hraðamörk

12. maí 2019 kl. 09:00

Flutningum á sjó fylgir mikil mengun. Því vilja fyrirtækin sjálf breyta. Mynd/EPA

Parísarsamkomulagið, sem var undirritað árið 2015, er þannig uppbyggt að losun frá alþjóðlegum siglingum og millilandaflugi eru fyrir utan samkomulagið og hefur það verið gagnrýnt – enda stór hluti af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu frá þeim komið.

Það er fullyrt að án þess að böndum verði komið á losun skipa og flugvéla sé tómt mál að tala um að markmið samkomulagsins séu raunhæf. Um þetta eru forsvarsmenn alþjóðlegra stórfyrirtækja í siglinum meðvitaðir og hafa rætt hvernig best verði við þessu brugðist.

Miðillinn Quartz (qz.com) greinir frá því að í apríl árið 2018 lagði Alþjóða siglingamálastofnunin(IMO) fram stefnu sína um að minnka losun frá siglingum um 50% fyrir árið 2050, borið saman við árið 2008. Til að þetta sé mögulegt þarf að herða reglur, og ein hugmyndin er einföld en árangursrík. Það er einfaldlega að skylda sjófarendur til að hægja á skipum sínum, en alþekkt er að hægt er að minnka eldsneytisnotkun bíla verulega með því að halda niðri hraða. Nákvæmlega það sama á við um skip, stór sem smá.

Quartz segir frá því að eftir efnahagshrunið árið 2008 hafi eigendur fyrirtækja gert nákvæmlega þetta – hægt á skipum sínum til að halda kostnaði í lágmarki. Hafa verið teknar saman tölur um að skip sem hægir á sér um einn tíunda geti minnkað eldsneytisnotkun um 27% - sem eru risavaxnar tölur í samhengi loftslagsmála.

Á dögunum undirrituðu forstjórar 107 skipafélaga opið bréf þar sem hvatt var til þessarar aðgerðar. Sumir af þessum 107 manna hópi eru í forsvari fyrir stærstu skipafélög heims – og er Euronav nefnt sem dæmi en fyrirtækið gerir út fleiri risaolíuskip en nokkuð annað í heiminum sem skráð er á markað.