föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fólksflótti úr strandbyggðum Norður-Noregs

7. september 2009 kl. 12:24

Á síðustu 25 árum hafa 40 þúsund manns flust á brott úr strandbyggðunum í Norður-Noregi og fólksflóttinn heldur áfram. Á hverju ári flytja 1.600 manns úr sjávarþorpunum og inn til borganna.

Þetta kemur fram í skýrslu sem Torbjörn Trondsen prófessor við norska sjávarútvegsháskólann í Tromsö í Norður-Noregi hefur tekið saman. Í skýrslunni leggur hann mat á það að hve miklu leyti markmið fiskveiðistefnu stjórnvalda um verðmætaaukningu, búsetu og atvinnuskilyrði hafi náð fram að ganga.

Trondsen segir að náðst hafi það markmið að viðhalda mikilvægustu fiskistofnunum. Þeir séu í góðu ástandi. Rekstrartekjur útgerða hafi tvöfaldast og laun sjómanna hafi aukist um 50% á föstu verðlagi. En aflaverðmætið miðað við hvert kíló hafi ekki aukist ef verðbólgan sé tekin út úr dæminu. Verðmætaaukningin byggist á auknu aflamagni.

Hann segir að hækkun á launum sjómanna haldist í hendur við það að  sjómönnum hafi fækkað um helming. Á síðustu 25 árum hafi norskum fiskimönnum fækkað um 15.000 á landsvísu, þar af hafi 6.000 færri fiskimenn aðalstarf sitt af veiðum í sjávarplássum Norður-Noregs. Auk þess hafi fólki í fiskvinnslu fækkað um þúsundir.

Frá þessu er skýrt á vef IntraFish