þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Formaður LÍÚ: Árangri okkar og orðspori má ekki kasta fyrir róða

28. október 2010 kl. 14:41

„Íslenskur sjávarútvegur er vel skipulagður, hátæknivæddur þekkingariðnaður þar sem fjölmargir aðilar leggja hönd á plóg, bæði beint og óbeint. Við eigum í harðri samkeppni á alþjóðavettvangi um sölu sjávarafurða og alla daga eru þúsundir manna og kvenna að vinna frábært starf í íslenskum sjávarútvegi og tengdum greinum," sagði Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, m.a. í ræðu sinni á aðalfundi samtakanna í dag.

Formaðurinn sagði einnig: „Engu að síður er umræðan um sjávarútveginn hér heima fyrir oftast neikvæð og snýst langmest um kvótakerfið og hvernig því skuli breyta.  Margir sem þar koma að vilja breyta reglum þannig að þeir geti veitt  án þess kaupa eða vinna sér inn veiðiheimildir. Aðrir telja að með því að skattleggja sjávarútveginn sérstaklega verði hag þeirra betur borgið. Þeir hafa hinsvegar fæstir komið nærri sjávarútvegi eða látið sér detta það í hug. Margir þessara aðila kveðast drifnir áfram af  sanngirni, jafnræði og mannréttindum.  Að vísu er þar oft á tíðum lítið rúm fyrir mannréttindi þeirra starfa í atvinnugreininni."

Adolf sagði sjávarútveginn vera mikilvæga atvinnugrein fyrir Íslendinga og munu verða það áfram. Því væri það nauðsynlegt að hér væri stundaður sjálfbær sjávarútvegur sem skilaði okkur öllum arði.  „Það er hinsvegar ekkert sjálfgefið að svo sé og þannig hefur það ekki alltaf verið,"  bætti hann við.

Við upphaf ræðu sinnar rakti hann ítarlega samskipti forystumanna LÍÚ og stjórnvalda undanfarið hálft annað ár.

„Það er nauðsynlegt að rekja fyrir ykkur samskipti okkar við stjórnvöld nokkuð ítarlega. Aðeins þannig tel ég mér fært að leiða ykkur inn í þá veröld sem við búum við. Allt frá því núverandi ríkisstjórn komst til valda hefur mikilvægasta verkefni okkar  falist í því að berjast gegn illa ígrunduðum og óraunhæfum hugmyndum stjórnvalda. Hugmyndum um upptöku og uppboð á aflaheimildum samkvæmt svokallaðri fyrningarleið sem settar voru fram án nokkurs mats á afleiðingum þeirra."

Undir lokin sagði formaður LÍÚ: „Aðferð okkar hefur verið sú að setja ábyrgðina á atvinnugreinina sjálfa. Mikil verðmæti liggja í aflaheimildum fyrirtækjanna enda leggja þær grunninn að rekstrarhæfi þeirra. Það er því hagur þeirra að nýta fiskistofnana á sjálfbæran hátt til langs tíma. Það er vegna þessa sem íslenskir útvegsmenn hafa lengi verið talsmenn sjálfbærra og ábyrgra fiskveiða og verið tilbúnir til að draga úr veiðum ef ástand fiskistofnanna versnar.  Þegar menn vita að þeir uppskera þegar ástandið batnar eru þeir viljugir til að taka á sig tímabundnar skerðingar. Árangri og orðspori okkar má ekki kasta fyrir róða með upptöku og uppboði aflaheimildanna. Hlutverk okkar er að koma í veg fyrir það."