þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Formaður SF: Mesta ógnin heimatilbúin

1. október 2009 kl. 15:00

Arnar Sigurmundsson, formaður Samtaka fiskvinnslustöðva, segir að á sama tíma og sjávarútvegur eigi að stuðla að endurreisn þjóðarbúsins stafi greininni mest ógn af aðgerðum stjórnvalda.

Í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag er rætt við Arnar Sigurmundsson en SF hélt aðalfund nýlega. Arnar segir að rekstrarskilyrði sjávarútvegs hafi gjörbreyst. Gengi krónunnar hafi lækkað um 25% á einu ári. Tekjur sjávarútvegs hafi aukist um 20-25% á sama tíma þrátt fyrir verðlækkanir í erlendri mynt en erlendar skuldir hafi þar á móti hækkað um 30-35%. Erlendur kostnaður við veiðar og vinnslu hafi einnig hækkað. ,,Engu að síður hafa þessar breytingar skilað aukinni framlegð til sjávarútvegsfyrirtækja og það er jákvætt,“ segir Arnar.

Arnar segir að boðuð fyrningarleið skapi mikla óvissu í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Hann bendir á að um 70-75% af fyrirtækjum í sjávarútvegi séu rekstarhæf og sé það mun hærra hlutfall en gerðist í öðrum atvinnugreinum. ,,Menn vænta mikils af sjávarútvegi til að koma okkur út úr efnahagsvandanum. Á sama tíma efna stjórnvöld til ófriðar við greinina. Mér finnst ótrúlegt að nokkur skuli láta sér til hugar koma að slátra mjólkurkúnni. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að stjórnvöld ætli sér að fara fyrningarleiðina,“ segir Arnar.

Sjá nánar viðtal við Arnar Sigurmundsson og fréttir frá aðalfundi SF í Fiskifréttum.