laugardagur, 16. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Forseti Norðurlandaráðs gagnrýnir ákvörðun um hvalveiðar

28. janúar 2009 kl. 15:23

„Hvalveiðar eru umdeildar bæði á Norðurlöndum og í heiminum öllum. Það er undarlegt að ríkisstjórn Íslands skuli ákveða að undirrita svo umdeildan samning í miðri fjármála- og stjórnarkreppu. Í slíkri pólitískri ringulreið ætti ekki að ræða mál sem þetta“, segir Sinikka Bohlin, þingmaður frá Svíþjóð og forseti Norðurlandaráðs.

Bohlin sagði þetta á fundi Norðurlandaráðs á Íslandi sem haldinn er dagana 27.-28. janúar. Svíþjóð fer í ár með formennsku í Norðurlandaráði sem er opinber samstarfsvettvangur þingmanna Norðurlandanna.

Í frétt frá Norðurlandaráði um málið segir m.a. að Ísland hafi ákveðið að stórauka hvalveiðikvóta næstu fimm ára. Til dæmis verði nú leyfilegt að veiða 150 langreyðar en áður eingöngu níu.

Norræna ráðherranefndin, það er að segja samstarfsvettvangur ríkisstjórna Norðurlandanna, hefur ekki tekið afstöðu til hvalveiða á Norðurlöndum.