sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Forsetinn kynnir Google eftirlitskerfi fiskveiða við Ísland

26. apríl 2012 kl. 15:17

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands.

Sendinefnd frá fyrirtækinu væntanleg til Íslands í boði forsetans.

Á sjávarútvegssýningunni í Brussel hélt forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ræðu á hádegisverðarfundi sem samtök frá Íslandi og Alaska efndu til undir heitinu The Evolution of Sustainability and the Role of Choice. Var þar fjallað um nauðsyn þess að sjávarútvegur um heim allan byggði í framtíðinni á sjálfbærri nýtingu auðlinda og allar afurðir yrðu vottaðar í samræmi við alþjóðlega gæðamælikvarða.

Í ræðu sinni rakti forsetinn hvernig samspil upplýsingatækni og eftirlits hefði gert Íslendingum kleift að fylgjast með veiðum allra skipa. Þá auðvelduðu tölvunýjungar neytendum að rekja vinnsluferli og uppruna aflans. Upplýsingar Fiskistofu væru aðgengilegar á netinu og með nútímatækni væri unnt að veita neytendum um allan heim upplýsingar um vöruna í tölvu eða snjallsíma og gera þeim þannig sjálfum kleift að ganga úr skugga um uppruna hennar.

Forseti færði rök fyrir því að tenging nýjustu upplýsingatækni við skipulag veiða og vinnslu væri árangursríkasta leiðin til að koma á alþjóðlegu eftirlitskerfi en samkomulag um slíkt væri nauðsynlegt ef tryggja ætti verndun auðlinda hafsins á komandi áratugum. Lýsti forseti tillögum þess efnis og greindi frá því að sendinefnd frá Google væri væntanleg til Íslands á næstunni í boði sínu til að kynnast hinu íslenska kerfi og meta hvernig mætti beita því á heimsvísu, m.a. gegnum Google Earth.

Sjá nánar um hádegisverðarfundinn HÉR