mánudagur, 9. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Forskot lóðrétt samþættra fyrirtækja

Guðsteinn Bjarnason
17. apríl 2018 kl. 07:00

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda skora á nýjan sjávarútvegsráðherra að kynna sér fimm ára gamalt álit Samkeppniseftirlitsins þar sem fullyrt er að lagalegt umhverfi sjávarútvegs skekki samkeppni

Mera en fimm ár eru liðin frá því Samkeppniseftirlitiðmst komst að þeirri niðurstöðu að lagaumhverfi sjávarútvegs hér á landi leiði af sér „samkeppnisleg vandamál“, eins og það er orðað i áliti eftirlitsins. Vandinn er sagður felast í því að „lóðrétt samþætt útgerðarfyrirtæki“, sem stunda bæði fiskveiðar og fiskvinnslu, hafi ákveðið forskot á fyrirtæki sem eingöngu stunda annað hvort útgerð eða vinnslu.

Samkeppniseftirlitið lagði jafnframt til fjórar leiðir til úrbóta, og sagði að minnsta kosti þessar fjórar leiðir vera færar.

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) minntu á þetta á vef sínum nýverið og hvöttu um leið nýjan sjávarútvegsráðherra, Kristján Þór Júlíusson, til að kynna sér hið fimm ára gamla álit Samkeppniseftirlits.

„Síðan hafa fjórir ráðherrar hafa haft tækifæri til að fara að álitinu,“ segir SFÚ. „Vissulega haft mislangan tíma til þess en árið 2017 voru fimm ár liðin frá útgáfu þess.“

SFÚ segja jafnframt að breytingarnar sem Samkeppniseftirlitið lagði til væru allar til mikilla bóta og myndu styrkja íslenskan sjávarútveg enn frekar: „Eðlileg samkeppni hlýtur alltaf að vera krafa í íslenskum sjávarútvegi.“

Undrast viðbragðaleysi
Arnar Atlason, formaður SSÚ, segir það lengi hafa verið helsta hugðarefni samtakanna og baráttumál að koma á eðlilegri samkeppni í greininni.

„Álit Samkeppniseftirlitsins er mjög skýrt hvað það varðar að samkeppni hér er ekki fullkomlega eðlileg,“ segir hann. „Við höfum undrast það mikið að undanfarin ár hafi ráðherrar ekki brugðist við þessu áliti með neinum hætti.“

„Við erum náttúrlega samtök fyrirtækja sem öll versla á fiskmarkaði og auðvitað hugsum við fyrst og fremst um okkar hag, eins og vera ber í öllum rekstri.“

„Við höfum ítrekað þetta við samkeppniseftirlitið,“ segir hann. „en það bendir á að oft taka svona hlutir langan tíma að leiðréttast.“

Þar megi taka samkeppnismál í leigubílarekstri sem dæmi.

„Það eru svona sex eða sjö ár síðan Samkeppniseftirlitið benti á að hjá leigubílunum væri kannski ekki allt eðlilegt út samkeppnissjónarmiðum. Það er fyrst núna sem eitthvað er að gerast, og það fer ekki af stað fyrr en Evrópusambandið fer að þrýsta á.“

Hann segir vissulega koma til greina að fara með samkeppnistöðu útgerðar og fiskvinnslu lengra.

„Við getum ekki útilokað það i okkar samtökum að við leitum liðsinnis fyrir Evrópudómstólnum.“

Getur skekkt samkeppnisstöðu
Í áliti sínu frá 19. nóvember 2012 benti Samkeppniseftirlitið bæði ráðherra og öðrum stjórnvöldum á að það „kunni að vera hvatar hjá lóðrétt samþættum útgerðarfyrirtækjum sem valda því að þau gefa upp sem lægst verð í innri viðskiptum milli vinnslu- og útgerðarhluta fyrirtækjanna. Með því geta lóðrétt samþætt útgerðarfyrirtæki sem stunda bæði veiðar og vinnslu dregið úr gjaldtöku ríkisins og annarra opinberra aðila af rekstrinum og lækkað launakostnað sinn.“

Þar með sé bæði opinber gjaldtaka og launakostnaður líkleg til að verða hærri hjá fyrirtækjum í útgerð eða vinnslu sem ekki eru „lóðrétt samþætt“. Þetta geti skekkt samkeppnisstöðu þeirra.

„Þá telur Samkeppniseftirlitið að aðstaðan sem að framan er lýst sé einnig til þess fallin að minni sjávarafli fari um fiskmarkaði landsins en ella,“ segir enn fremur í álitinu. „Þar með kunni slík verðlagning að leiða til þess að framboð á fiskmörkuðum verði minna og verðmyndun á þeim ekki jafn skilvirk.“

Enn fremur þurfi að hafa í huga það forskot sem fiskvinnslur sem starfa í tengslum við útgerð njóta varðandi aðgang að hráefni í samanburði við fiskvinnslur án útgerðar.

„Af þessu og öðrum þáttum leiðir að fiskvinnslur án útgerðar eru háðar fiskmörkuðum,“ segir í álitinu. „Fyrir þessa aðila er það ekki valkostur að treysta alfarið á bein viðskipti við útgerðir.“

Samkeppniseftirlitið bendir síðan á að vissulega geti lóðrétt samþætting verið mikilvæg „vegna geymslutíma og eiginleika vörunnar, markaðssetningar og öflunar hráefnis til að uppfylla langtímasamninga.“

Þess vegna sé ekki skynsamlegt að gera kröfu til þess að allur fiskur sé fluttur á fiskmarkaði áður en hann fer til frekari vinnslu.

Einnig segir Samkeppniseftirlitið mikilvægt að hafa í huga samkeppnishæfni íslenskrar útgerðar og fiskvinnslu á alþjóðlegum mörkuðum.

„Hins vegar geta úrbætur á lagaumhverfinu bætt stöðu fiskvinnslna án útgerðar,“ segir í álitinu.

Bent á fjórar leiðir
Sem fyrr segir telur Samkeppniseftirlitið að minnsta kosti fjórar leiðir vera færar til að „draga úr þeim samkeppnislegu vandamálum sem leiða af lagaumhverfi sjávarútvegs á Íslandi“.

Sú fyrsta felur í sér að settar verði reglur um milliverðlagningu sem tryggi að verðlagning í innri viðskiptum lóðrétt samþættra fyrirtækja verði eins og um viðskipti sé að ræða milli tveggja óskyldra fyrirtækja.

Önnur snýst um að hafnir miði gjaldtöku sína við það umstang sem fylgir því að þjónusta skip, þannig að ekki séu mishá hafnargjöld lögð á útgerð sem ekki starfrækir fiskvinnslu og útgerð sem einnig stundar fiskvinnslu.

Sú þriðja felst í því að breyta því fyrirkomulagi sem gildir um Verðlagsstofu skiptaverðs að hagsmunasamtök útvegsmanna, sem annars eru keppinautar, „ræði um og ákveði verð sem síðan er notast við í innri viðskiptum útgerða“. Eðlilegast væri að „útvegsmenn kæmu ekki með beinum hætti að ákvörðun þessa verðs.“

Loks áréttar Samkeppniseftirlitið eldri tilmæli sem áður hafði verið beint til þáverandi sjávarútvegsráðherra auka mætti „samkeppni og nýliðun í greininni með því að auka heimildir til kvótaframsals,“ og er þar nefnt sem dæmi að „aðilar sem ekki ættu fiskiskip gætu keypt, leigt og selt aflaheimildir.“