laugardagur, 28. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Forstjóri Hafrannsóknastofnunar: Ekki aukin þorskveiði að marki fyrr en í fyrsta lagi 2012/2013

19. júní 2008 kl. 12:00

,,Þar sem næstu árgangar sem koma inn í veiðina eru lélegir getum við ekki búist við verulegri aukningu þorskveiða næstu fjögur til fimm árin að minnsta kosti. Það er m.a. háð því að nýliðunin verði góð í ár en við vitum að sjálfsögðu ekkert um það á þessari stundu hvernig hún verður,“ segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, í opnuviðtali í nýjustu Fiskifréttum.

Jóhann vísar á bug gagnrýni á veiðiráðgjöf stofnunarinnar og segir nauðsynlegt að draga úr veiði til að stuðla að hámarksnýtingu. Hann segir að ráðgjöf stofnunarinnar hafi skilað sér í uppbyggingu og góðri nýtingu margra fisktegunda.

Jóhann segist vera algjörlega sammála útgerðarmönnum og sjómönnum um að töluvert mikið sé af þorski á miðunum. Enda hafi vísindamenn Hafrannsóknastofnunar ekki haldið öðru fram.

,,Alvaran snýst hins vegar um það að árgangarnir eftir aldamótin, þ.e. árgangar frá 2001 til 2007, eru allir undir meðallagi og 2001 og 2004 árgangar eru nánast í sögulegu lágmarki. Á komandi árum getum við ekki vænst þess að auka aflamarkið svo nokkru nemi vegna þess hve nýliðunin er léleg. Við erum með töluvert nákvæma mælingu á stærð þessara árganga. Hinn góði þorskafli sem fékkst í vetur og stækkandi hrygningarstofn helgast af því að nokkrir árgangar, sem komust á legg fyrir síðustu aldamót, hafa vaxið og dafnað.“

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Fiskifréttum sem fylgja með Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér.