mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Föt sem breyta um lit eftir umhverfi

17. september 2012 kl. 10:46

Fiskur í felulitum.

Vísindamenn nýta tækni kolkrabba til að þróa nýtt fataefni

Vísindamenn við háskólann í Bristol í Bretlandi hafa framleitt fataefni sem líkir eftir felulitum í roði kolkrabbategundar (cuttlefish). Klæðnaður í felulitum er því kominn á nýtt stig sem kalla má „snjallklæði“ þ.e. föt sem breyta um lit eftir umhverfinu.
Kolkrabbi getur fallið inn í nánast hvaða bakgrunn sem er bæði hvað varðar liti og form. Kolkrabbi var til dæmis settur í tilraunatank þar sem veggir voru eins og taflborð. Eftir smátíma var roðið á honum komið með svarta og hvíta reiti.
Það sem gerir þetta kleift eru litlir sekkir í roðinu með svörtum, gulum, brúnum og fleiri litarefnum. Vísindamenn hafa kortlagt hvernig heili kolkrabbans gefur skipanir um að hin mismunandi litarefni fara út í roðið til að líkja eftir umhverfinu.
Í framhaldi af því hefur verið þróað mjúkt fataefni með litarefnum í. Með rafboðum er hægt að stjórna því hvaða litir koma fram á yfirborði efnisins og einnig er hægt að breyta mynstri þess. Fatnaður úr efni af þessu tagi gæti nýst í hernaði þar sem menn vilja falla inn í umhverfið en einnig geta menn notað þessa tækni til að vekja á sér athygli.