miðvikudagur, 14. apríl 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frá heimilisiðnaði í heimsframleiðslu

Guðjón Guðmundsson
5. apríl 2021 kl. 09:00

Guðmundur Gunnarsson og Einar Skaftason við höfuðstöðvar Hampiðjunnar í Skarfagörðum. Mynd/Gígja Einarsdóttir.

Hvað er fiskiskip án kvóta? mætti spyrja. En það mætti líka spyrja hvers virði fiskiskip án veiðarfæra sé. Umfjöllun um sjávarútveg snýst að miklu leyti um kvóta, skip, afla, vinnslu og sölu en sjaldnar um veiðarfæri sem er grundvöllurinn fyrir þessu öllu ekki síður en skip og kvóti.

Guðmundur Gunnarsson hefur helgað líf sitt veiðarfærahönnun og er öllum útgerðarmönnum og sjómönnum kunnur. Hann er þekktur fyrir Gloríu trollin sem hafa skilað ófáum sporðinum í land af Íslandsmiðum og víðar. Guðmundur er nú að setjast í helgan stein en hefur frá mörgu að segja.

Guðmundur býr í Hafnarfirði. Blaðamaður mælti sér því mót við hann og Einar Skaftason veiðarfærahönnuð í Kænunni, Kaffivagni þeirra Hafnfirðinga. Guðmundur er kvikur maður og stutt í kankvíslegt brosið og hnyttin tilsvör. Einar, sem er verkfræðingur að mennt, er að taka við af Guðmundi sem aðal veiðarfærahönnuður Hampiðjunnar. Guðmundur skilur sáttur frá borði og auðheyrt er að honum þykir vænt um sinn gamla vinnustað sem hann hefur þó ekki alfarið sagt skilið við því hann gegnir þar áfram ráðgjafarstörfum.

Handhnýtt í heimahúsum

Hampiðjan er stofnuð í miðri heimskreppunni, 5. apríl 1934. Tilgangurinn var að framleiða innanlands veiðarfæri fyrir íslensk fiskiskip því mikill skortur var á veiðarfæraefnum á millistríðsárunum. Fyrirtækið flutti inn hamp, manillu og sísal og vann úr þessum  efnum snúið garn sem var sett upp í hankir.   Byggt var verksmiðjuhúsnæði í Stakkholti sem er rétt fyrir ofan Hlemm.  Húsið var 240 m² að grunnflatarmáli og á neðri hæðinni voru spunavélar en á efri hæðinni netastofa þar sem netið var handhnýtt.

  • Verksmiðja Hampiðjunnar í Stakkholti á fjórða áratugnum. Myndir/Hampiðjan.

„Einnig var net handhnýtt í heimahúsum í sjávarútvegsplássum landsins og bóndabæjum í nágrenninu,“ segir Guðmundur um fyrstu skref fyrirtækisins „ og það hafi ekki verið fyrr en í byrjun sjöunda áratugarins sem vélhnýtt trollneta framleiðsla hafi hafist á vegum Hampiðjunnar“. Togurum fjölgaði mikið á eftirstríðsárunum og árið 1947 komu til landsins fjöldi síðutogara og þörfin fyrir net jókst samhliða því.

Efnið sem notað var í netin þá var ekki eins sterkt og gerviefni dagsins í dag eru og vegna þess að þræðirnir voru náttúrulegir plöntuþræðir þá fúnuðu trollin auðveldlega ef ekki var gætt vel að þeim.  Á þeim tíma var botnlagið ekki eins vel þekkt og í dag og því oft dregið á mjög slæmum botni og trollin rifnuðu mikið. Það var því stöðugur markaður fyrir ný net meðan þessi skip voru gerð út.

Tvö troll á mánuði á skip

Guðmundur segir að hvert skip hafi farið með að meðaltali tvö troll á mánuði, eða nálægt 24 troll á ári. Verkefni Hampiðjunnar voru því nánast óþrjótandi. Barningurinn á áhöfnunum var ekki síðri því allar netabætingar fóru fram undir beru lofti í hvaða veðri sem var.

  • Á neðri hæð verksmiðjuhússins í Stakkholti var spunastofa og á þeirri efri voru netin handhnýtt.

Fyrsta stóra breytingin í veiðarfæragerð Hampiðjunnar varð í kringum 1965 þegar byrjað var að hanna troll úr nýjum plastefnum, svokölluðum polyethylene efnum. Staða fyrirtækisins var erfið því eldri vélar sem hannaðar voru fyrir framleiðslu ú nátturulegum þráðum urðu gagnslausar því endurnýja þurfti allan tækjakostinn.  Eigendur Hampiðjunnar þurftu að taka þá erfiðu ákvörðun hvort það ætti að hætta rekstri félagsins eða leggja í miklar fjárfestingar og fjárfesta í nýjum framleiðslutækjum.  Sú stórhuga ákvörðun var tekin og með því hófst framgangur Hampiðjunnar því vélakosturinn var einn sá besti í Evrópu og á þeim tíma var lagður grunnur að því mikla þróunarstarfi sem síðan hefur einkennt Hampiðjuna.

„Á þessum árum var almennt talið nauðsynlegt fyrir Íslendinga að vera sjálfum sér nægir um veiðarfæri. Seinni heimsstyrjöldin hafði kennt mönnum að ekki var hægt að stóla á innflutninginn,“ segir Guðmundur.

Gulltoppur og Champion

Upp úr 1980 fór Guðmundur ásamt Guðna Þorsteinssyni, fiskifræðingi og forstöðumanni veiðarfærarannsókna hjá Hafrannsóknastofnun, á ráðstefnu um veiðarfæri á vegum Alþjóða hafrannsóknastofnuninni. Guðni vann mikið að þróun og rannsóknum á veiðarfærum með Hampiðjunni og Netagerð Vestfjarða. Hann var í eitt ár formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga og skrifaði fjölda greina og ritgerða um veiðarfæri í blöð og tímarit. Guðmundur kveðst hafa lært mikið á þessari ráðstefnu. 1986 hófst samstarf með Hafró og Netagerð Vestfjarða. Síðarnefnda fyrirtækið átti neðansjávarmyndavél sem flýtti mjög fyrir þróun veiðarfæra í samstarfi þessara þriggja aðila og það var Einar Hreinsson sjávarútvegsfræðingur hjá netagerðinni sem stjórnaði neðansjávarmyndvélinni.

  • Barningurinn var mikill á síðutogurunum því allar netabætingar fóru fram undir beru lofti í hvaða veðri sem var.

„Við fórum að skoða gamla Granton trollið sem hafði verið notað í yfir 100 ár með það í huga hvernig mætti þróa nýtt veiðarfæri út frá því. Úr varð troll sem kallaðist Gulltoppur og annað sem kallaðist Champion troll. En með þessum trollum urðu viss tímahvörf í veiðarfæragerð,“ segir Guðmundur.

Með tilkomu prófunartanksins í Hirtshals í Danmörku verða enn frekari framfarir í veiðarfæragerð hjá Hampiðjunni. Guðmundur segir að tankurinn sé mikilvægur liður í þróuninni en sá galli er á gjöf Njarðar að kostnaðarsamt var og er ennþá að komast að í tankinum auk þess sem ferðir og uppihald bætast við. Ávinningurinn geti engu að síður verið mikill.

Gloría

Upp úr 1970 hefst skuttogaravæðingin hérlendis í kjölfar stækkunar landhelginnar. Guðmundur segir að skrapdagakerfið hafi líka flýtt fyrir þróun veiðarfæra. Útgerðarmenn hafi staðið frammi fyrir því að hafa takmarkaðan fjölda daga til veiða. Þeir hafi því leitað logandi ljósi að öðrum verkefnum fyrir skipin. Á áttunda áratugnum voru sovésk skip stórtæk við veiðar á úthafskrafa úti af Reykjaneshrygg. Guðmundur setti sig í samband við færeyskan skipstjóra sem hafði verið á þessum veiðum og fékk þau skilaboð frá honum að þarna gilti að hafa stórt troll til veiðanna.

  • Netin handhnýtt á efri hæðinni í Stakkholti.

„Jón Guðmundsson útgerðarmaður, sem gerði út Harald Kristjánsson og Sjóla, kom á minn fund 1989 og sagðist vanta tvö flottroll til þess að veiða úthafskarfa. Einum og hálfum mánuði seinna vorum við búnir að þróa troll og það var farið af stað á frystitogurum Sjólastöðvarinnar, Haraldi Kristjánssyni   og Sjóla. Ég fór með í fyrsta túrinn á Haraldi þar sem  Páll Eyjólfsson var skipstjóri. Við vorum í ellefu daga og veiðin var engin. En ég lærði heilan helling í túrnum. Áður en við hættum gerði ég breytingu á trollinu. Eiríkur Ragnarsson var stýrimaður og hann togaði um nóttina. Þegar við komum upp í brú að morgni 1. maí sagði Eiríkur að þetta hefði verið í fyrsta sinn sem trollið hefði litið eðilega út á höfuðlínuskjánum. Það var híft og 30 tonn fengust. Á heimstíminu vorum við Palli að eitthvað að skrafa saman. Honum verður að orði að við hjá Hampiðjunni hefðum gert    gloríur með  þetta veiðarfæri. Ég svaraði honum að bragði að þarna væri nafnið komið á þetta nýja troll.“

Öll framleiðsla í Litháen

2003 keypti Hampiðjan danska netafyrirtækið Utzon í Litháen sem framleiddi hágæða nylon net og byggði uppstórt og öflugt framleiðslufyrirtæki sem heitir í dag Hampidjan Baltic. Öll framleiðsla á veiðarfæraefnum var í kjölfarið flutt til Litháens og framleiðslu á þeim hætt hér á landi. Hampiðjan hafði einnig rekið verksmiðju í Portúgal og framleiðslan þar var sömuleiðis flutt til Litháen.  Með þessari uppbyggingu var stigið ákveðið skref þar sem Hampiðjan náði með þessur stjórn á öllum framleiðsluferli veiðarfærisins frá framleiðslu þráða til til stærstu og fullkomnustu flottrolla sem völ er á í heiminum í dag. Án þessarar stórtæku breytinga hefði fyrirtækið ekki verið samkeppisfært, hvorki hér á landi eða erlendis, og með þessari var grunnurinn lagður að vexti Hampiðjunnar undanfarin ár.

  • Helix þankaðallinn er þróaður er af Hampiðjunni  en á honum eru óteljandi margir snúðar sem virka eins og litlir vængir.

Stærstu breytingarnar í veiðarfærahönnun síðustu misserin eru tengdar ofurþráðunum Dyneema, en Hampiðjan tók stóran þátt í þróun á vörum úr þessum þráðum á sínum tíma og gerir enn. Fyrsta varan var DynIce ofurkaðlinn sem er sterkasti kaðall í heiminum, sterkari en stál í sama sverleika. Í dag eru burðarlínur flottrollanna sem taka mesta áttakið eingöngu úr þessum efnum eins og grandarar, bakstroffur ,höfuðlína, hliðarlínur og jafnvel togtaugar. Þetta léttir veiðarfærið gríðarlega og er því mun umhversvænna en að nota vír, auk þess sem auðveldara er að vinna með trollið og það endist lengur. Annar kaðall sem þróaður er af Hampiðjunni er Helix þankaðalinn, en á honum eru óteljandi margir snúðar sem virka eins og litlir vængir. Toppar Gloríu flottrollanna eru svo samansettir úr mörgum Helix köðlum sem hver um sig þennst út þegar trollið er dregið og þannig fæst meiri opnun í trollið alla leið aftur í belg, sem eykur veiðni þess.

Síðan Hampiðjan var stofnuð hefur orðið gríðarlega framþróun veiðarfæra og efna, sem skilað hefur fyrirtækinu fremst í flokk sem veiðarfæra framleiðanda í heiminu. Þessi árangur er ekki síst að þakka framsæknum mönnum eins og Guðmundi Gunnarssyni sem hefur starfað að veiðarfæraþróun hjá Hampiðjunni í hálfa öld.

  • Úr nútímavæddri verksmiðju Hampiðjunnar.